þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kröfur um hæfni dómara aldrei verið meiri

7. desember 2011 kl. 11:19

Kröfur um hæfni dómara aldrei verið meiri

Um 100 manns lögðu leið sína í félagheimili Fáks í gærkvöldi þar sem ráðstefna um dómaramál fór fram. Sex framsögumenn með ólíka nálgun á málefni dóma og dómara tóku til máls. Fundarstjóri var Ágúst Sigurðsson.

Hér eftir fer stutt yfirlit fundsins, en lesendum er velkomið að bæta innleggi við og rifja upp umræður gærkvöldsins í athugasemdakerfi vefsíðunnar hér að neðan:

Erindi framsögumanna voru ólík en almenn og snertu á ýmsum málefnum varðandi dómgæslu og störf dómara.

Guðlaugur Antonson hrossaræktarráðunautur fór um víðann völl, talaði bæði um kynbótadóma og breyttar áherslur í íþróttadómum, sýndi m.a. að vægisbreytingar á skeiði höfðu ekki útilokunaráhrif á þátttöku klárhesta á Landsmóti, því 24,1% hrossa sem sýnd voru á mótinu sýndu ekkert eða sáralítið skeið. Hann sagðist hafa séð á dómgæslu íþróttakeppninnar á Heimsmeistaramóti að meira er farið að leggja upp úr mýkt og samspili og minni áhersla er lögð á fótaburð og hraða.

Pjetur N. Pjetursson hjá HÍDÍ kom inn á ýmis málefni varðandi íþróttadómgæslu, sagði að dómarar eigi að geta staðsett og rökstutt alla dóma samkvæmt leiðaranum. Hann sagði að samræmi milli dóma minnki óneitanlega þegar fleiri en einn keppandi væru inn á velli í einu. Í tengslum við það varpaði hann fram hugmyndum um hvort hægt væri að búa til og styðjast við einhvers konar úrslitaleiðara. Hann sagði að ný gerð af dómarablöðum væru um það bil að líta dagsins ljós, en knapar munu vera orðnir nokkuð langeygir eftir þeim að er fram kom í umræðum.

Sigurbjörn Bárðarson tók til máls í nafni fræðslunefndar GDLH, hann fór yfir tilurð og form gæðingakeppninnar, sem hann sagði spegilmynd ræktunarstefnu íslenska hestsins. Sitt sýndist hverjum þegar gestur úr sal varpaði fram hugmyndinni um að samnýta kynbótadómara og gæðingadómara. Sigurbjörn sagði fordæmi fyrir því erlendis, en gestur úr sal vildi frekar vernda sérhæfingu dómaranna.

Olil Amble kom með sína sýn á dómaramálum útfrá sjónarhóli knapa, í kjölfari greinar á heimasíðu sinni um dómgæslu á móti síðsumars. Henni finnst vanta utanumhald og upplýsingaflæði. Hún kallaði eftir meiri faglegri þekkingu dómara, því þeir leiddu reiðmennskuna. Hún varpaði fram ýmsum hugmyndum varðandi verklag dómara og hvort hægt væri að dæma dómara. Hún fagnaði jafnframt öllum umræðum.

Lárus Ástmar Hannesson formaður GDLH talaði um ábyrgð og faglega sjálfsmynd dómara og hvatti til þess að dómurum yrði gert hærra undir höfði. Kröfur um hæfni dómara hefur aldrei verið meiri og hann sagði að myndbandsupptökur af mótum auki t.a.m. enn kröfur um rökstudda dómgæslu.

Þá kynnti Gunnar Reynisson rannsóknir sínar á gangtegundagreiningu. Lítil hefð er fyrir vísindum í dæmingu, en eins og kom fram í máli Gunnars hefur augað takmarkaða getu til að meta smávægileg blæbrigði. Máli sínu til skýringar sýndi hann hvernig hægt væri að mæla ýmsar breytur og stærðir af myndbandsupptökum.

Að því loknu fengu fundargestir orðið og vörpuðu fram innslögum og spurningum til frummælenda. Þar komu fram ýmis og ólík sjónarmið, sitt sýndist hverjum um stöðu dómaramála, rökræðurnar voru þó nokkuð hógværar og kurteisislegar. Talað var um fjárhagslega erfiðleika við að halda hvata í dómarastéttinni, einnig eigi skortur á tíma og fjármagni stóran þátt í því að ekki sé hægt að brjóta upp form kynbótadóma, talað var um deildarskiptingu til að stytta mót og minnka álag á dómara, niðurstöður heilbrigiðisskoðunnar á Landsmóti var tíðrædd. Þá var kallað var eftir vettvangi þar sem knapar gætu veitt dómurum aðhald. Góðar umræður leiddu að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að allir sneru bökum saman og störfuðu í þágu sanngjarnra dóma til bóta í reiðmennskunni.

Sigurður Sæmundsson átti lokaorðið, þar sem hann gladdist yfir málefnalegri ráðstefnu, nú yrði ekki staðar numið heldur væri nauðsynlegt að halda áfram að skapa vettvang fyrir umræður.