sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Krísufundur vegna hestapestar

20. maí 2010 kl. 10:11

Æ fleiri efast um að Landsmót verði haldið

Sérstakur fundur vegna hrossapestarinnar sem nú lamar hestamennsku um allt land hefur verið boðaður í landbúnaðarráðuneytinu á morgun. Á hann eru boðaðir fulltrúar helstu hagsmunaaðila í greininni, ásamt dýrlækni hrossa, Sigríði Börnsdóttur.

Tilefnið er hin grafalvarlega staða sem uppi er. Ljóst er að Landsmót hestamanna er í tvísýnu. Nú er tæpur mánuður þar til skráningarfrestur á Landsmót rennur út, samkvæmt dagskrá. Dræm skráning hefur verið í fyrstu kynbótasýningarnar vegna pestarinnar og sýnilegt að margir munu draga í lengstu lög að sýna hrossin. Fyrstu gæðingaúrtökurnar ættu að vera að hefjast þessa dagana samkvæmt mótaskrá, en tvísýnt er um þær.

Aðilar á vegum yfirdýralæknis hafa verið að safna gögnum um stöðu og útbreiðslu pestarinnar undanfarna daga. Í ljósi þeirra gagna verður staðan metin og tekin ákvörðun um hvort blása eigi Landsmótið af eða hvort óhætt er að halda undirbúningi áfram, með hugsanlegum tilfæringum og öðrum ráðstöfunum.

Æ fleiri hrossabændur og tamningamenn um allt land efast nú um að stætt sé á að halda undirbúningi áfram. Meðgöngutími pestarinnar virðist mun lengri en í upphafi var talið og enn eru hross að veikjast.