fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kristinn dró framboð sitt til baka

8. nóvember 2014 kl. 09:49

Kristinn Hugason.

Valið stendur milli tveggja Vestlendinga.

Kristinn Hugason tilkynnti þingheimi að hann myndi draga framboð sitt til formanns Landssambands hestamannafélaga til baka í kynningarræðu sinni á Landsþingi, sem nú fer fram.

Þingfulltrúar kjósa nú um nýjan formann hreyfingarinnar og stendur valið á milli þeirra Lárusar Ástmars Hannessonar og Stefáns Ármannssonar.

Ræða hans á þinginu var eftirfarandi:

Þingforsetar, frambjóðendur, ágætu þingfulltrúar

Framboð mitt til formanns var engin skyndiákvörðun en ég hef lengi haft hug á að láta til mín taka á þessum vettvangi. Ég hef stundað hestamennsku og hrossarækt í áratugi, hef bæði menntun og starfsreynslu á þessu sviði. Þá hef ég víðtæka þekkingu á stjórnsýslunni og samtökum hestamanna hérlendis sem erlendis og öllu regluverki kringum greinina. Ég kynnti framboð mitt tímanlega eða þann 24. október sl. og birti grein í Fréttablaðinu, er þar að finna kjarnann í mínum stefnumálum. Greinin hefur víða birst á vefnum.

Ástæða þess að upp úr sauð á þingi okkar fyrir skemmstu var deilur um landsmótsstaði en það er þó einungis birtingarmyndin því vandinn er djúpstæðari. Hann snýst um annars vegar rótgróið samtöðuleysi og hins vegar þá samskiptahætti sem hafa náð að gróa um sig.

Stefnumál mitt númer eitt er heildarsameining alls hestageirans, sameinuð stöndum við mun sterkar að vígi í okkar eigin starfi og bæði gagnvart stjórnvöldum og öðrum aðilum hér innanlands, einnig gagnvart samstarfsaðilum okkar erlendis og til að koma íslenska hestinum víðar á framfæri. Sameinaður hestageiri stendur líka betur við bakið á hestamennskunni á öllum sviðum, að fræðslu og útbreiðslumálum og við hvers konar hagsmunavörslu. Góðar fyrirmyndir að slíkum heildarsamtökum er að finna víða erlendis.

Landsmótsmálin yrðu auðleystari innan heildarsamtaka þótt auðvitað hyrfu ekki öll vandamál eins og dögg fyrir sólu. Flokkadrættir sem eiga rót sína í staðarvali landsmóta hafa áður leikið hreyfingu okkar grátt en í þetta sinn gengu þau mál alltof langt. Lausnin í staðarvalsmálunum fellst í að koma okkur saman um þær kröfur sem gera ber til landsmótssvæða gagnvart aðstöðu fyrir menn og hesta, rekstraröryggi mótanna og nýtingu mannvirkja utan mótstímans. Við þurfum jafnframt að leggja niður fyrir okkur hvernig við endurskipuleggjum landsmótin þannig að þau verði skemmtilegur atburður sem engin áhugamaður um hestamennsku vill missa af.

Fleiri mál bíða úrlausnar. Á næsta ári verða haldnir heimsleikar með beinni framkvæmdalegri aðkomu okkar Íslendinga þar liggur mikið við. Við þurfum að herða okkur í erlendu samstarfi hvoru tveggja gagnvart FEIF og ekki síður í alþjóðlegu samstarfi hestafólks sem ekki einskorðast við íslenska hestinn. Við þurfum að fá fleiri inn í Íslandshestamennskuna um heim allan rétt eins og að efla nýliðun hér heima en til að svo megi verða þurfum við hestafólk að vera eftirsóknarverður félagsskapur!

 

Ágætu áheyrendur!

Ég bar þá von í brjósti að öll myndum við læra af því sem gerðist á þinginu um daginn og átta okkur á að flokkadrættir, makk og klækjastjórnmál stórskaða okkur. Ég er ósáttur við þá kosningabaráttu sem fram fór. Stjórnmálamenningin er ekki á svo háu stigi hér á landi að við þurfum freakari innflutning hennar í hestamennskuna. Ég tel það eðlilegt að þeir sem bjóða sig fram til formennsku komi fram í tíma og kynni stefnumál sín. Því er ekki að heilsa, það sárvantaði málefnalega umræðu fyrir opnum tjöldum í aðdraganda þessara kosninga. Ég hef því afráðið að stíga til hliðar. Til að taka af öll tvímæli tek ég fram að það geri ég bara í þessum kosningum því ég mun áfram starfa ötullega innan hreyfingar hestamanna. En í ljósi allra aðstæðna tel ég rétt að kosið verði á milli þeirra tveggja Vestlendinga sem gefa kost á sér. Vona þó þrátt fyrir allt að ekki fari svo að sannist hið fornkveðna „ok veitti báðum verr".