miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kristín, Petra og Harpa Rún sigruðu

21. mars 2015 kl. 22:40

Kristín Lárusdóttir og Þokki frá Efstu-Grund sigruðu Opinn flokk á ísmótinu Svellkaldar konur 2015.

Fámennt en góðmennt á ísmótinu Svellkaldar konur.

Tveir sigurvegarar voru komnar langt að til að keppa á ísmótinu Svellkaldar konur sem fram fór í kvöld í Skautahöllinni í Laugardal.

Kristín Lárusdóttir bóndi í Syðri-Fljótum hjá Kirkjubæjarklaustri sigraði Opinn flokk á Þokka frá Efstu-Grund, eftir sannkallað einvígi við Lenu Zielinski sem sat Melkorku frá Hárlaugsstöðum 2. Lena og Melkorka voru efstar inn í úrslit en lutu í lægra haldi fyrir þeim Kristínu og Þokka þrátt fyrir glæsileg tilþrif.

Þokki er 12 vetra undan Andvara frá Ey og Katla frá Ytri-Skógum. Kristín, sem keppir fyrir hestamannafélagið Kóp, mætti með einnig með systur Þokka, sammæðra, Eldingu, undan Þokka frá Kýrholti og tryggðu sér einnig sæti í A-úrslitum.

Í flokki Meira vanra kvenna sigraði Petra Björk Mogensen á Sigríði frá Feti nokkuð örugglega. Þess má geta að Petra Björk, sem keppir fyrir hestamannafélagið Sprett, sigraði sama flokk í fyrra á merinni Keldu frá Laugarvöllum.

Harpa Rún Jóhannsdóttir frá hestamannafélaginu Sindra kom sá og sigraði flokk Minna vanra kvenna. Hún tefldi fram hesti sínum Straumi frá Írafossi og héldu þau efsta sæti frá forkeppni að lokaúrslitum.

Alls voru 68 konur skráðar til leiks á mótið og var mál manna að stemningin fyrir mótinu hafi oft verið meiri. Fámennt var á áhorfendapöllum Skautahallarinnar en stemning meðal keppenda var góð og keppnin sjálf nokkuð spennandi. Tveir keppendur urðu þó fyrir falli á mótinu, þegar hestar þeirra runnu til í beygjum.

Frekari fréttir og úrslit koma síðar.

Harpa Rún Jóhannsdóttir og Straumur frá Írarfossi.

Petra Björk Mogensen og Sigríði frá Feti.