miðvikudagur, 26. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kraftur - síðasti spretturinn, frumsýnd í gær

8. október 2009 kl. 10:43

Kraftur - síðasti spretturinn, frumsýnd í gær

Heimildarmyndin Kraftur - síðasti spretturinn, var frumsýnd í Kringlubíói 30. september. Myndin er mjög vel heppnuð og í senn hugljúf, smellin og sorgleg. Hún sýnir vel það magnaða samband sem var milli þeirra Þórarins Eymundssonar og Krafts frá Bringu en einnig er hún óður til náttúrunnar og voru margar magnaðar senur úr fallegu landslagi Skagafjarðar.

Myndin er tekin upp í Skagafirðinum og á heimsmeistaramótinu í Hollandi árið 2007 og spannar tímabilið frá janúar fram í ágúst það ár. Eins og flestum er kunnugt, endaði för þeirra félaga á HM 2007 með glæstum sigrum, þar sem þeir urðu heimsmeistarar í fimmgangi og samanlögðum fimmgangsgreinum og náðu að auki í silfur í tölti.

Í lok myndarinnar spyr Þórarinn sig að því hvort allt þetta hafi verið þess virði. Um leið segir hann að það sé svolítið skrítið að spyrja sig þeirrar spurningar, eftir að hafa látið drauminn rætast að verða tvöfaldur heimsmeistari og ná að auki einu silfri.

Viðmælendur voru nokkrir í myndinni, þar á meðal þeir Einar Öder Magnússon, Sigurður Sæmundsson, Erlingur Erlingsson, Sigríður Gunnarsdóttir kona Þórarins og síðast en ekki síst Steinþór Tryggvason í Kýrholti sem var mjög skemmtilegur og fór hreinlega á kostum oft í orðavali!

Árni Gunnarsson kvikmyndaframleiðandi er einn þriggja framleiðenda myndarinnar og hann er einnig mágur Þórarins. Þeir félagar voru viðstaddir og héldu báðir stutta tölu áður en myndin byrjaði. Þar lýsti Árni hugmyndinni sem varð hvatinn að myndinni og að hann langaði að koma þessum miklu tilfinningum sem bærast í brjósti eigenda hesta, þegar þeir þurfa að skilja við þá á erlendri grundu. Þetta tókst vel hjá Árna. Þórarinn sagði að honum hafi litist vel á að taka þátt í þessu verkefni en þó hefði hann haft myndina öðruvísi. Gert hana að meiri hestamynd eins og hann kallaði það, tekið reiðmennskuna meira inn í myndina. En hann hafi þó ekki fengið að ráða því, og þær senur hafi einfaldlega verið klipptar út!

Áhorfendur skemmtu sér vel, enda myndin í senn hjartnæm og einlæg og oft var hlegið í salnum og eins felldu margir tár, karlar jafnt og konur.

Í það heila er myndin góð afþreying fyrir alla, ekki bara hestamenn og hreinlega skemmtileg fjölskyldumynd og sannarlega hægt að mæla með því að fólk fari og sjái hana. Hún verður sýnd í Kringlubíói vikuna 1. - 7. október og er miðaverðið 1000 krónur. Smellið hér til að kaupa miða: http://midi.is/bio/10/2144/

Á opnunarmyndinni eru þeir Friðrik Þór Friðriksson, Árni Gunnarsson og Þórarinn Eymundsson.