laugardagur, 23. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Konur keppa

8. apríl 2015 kl. 09:45

Frá Kvennatölti Spretts.

Kvennatölt Spretts fer fram 18. apríl.

Hestamannafélagið Sprettur stendur fyrir Kvennatölti í Sprettshöllinni í Kópavogi laugardaginn 18. apríl nk.

"Mótið hefst kl. 11 að morgni og verður lokið seinnipartinn. Að venju er boðið upp á flokka við allra hæfi.

Boðið er upp á keppni í fjórum flokkum:

1. Opinn flokkur - opinn öllum sem vilja. Gert er ráð fyrir að reynslumiklir knapar skrái sig í þennan flokk (á líka við um reynslumikla áhugamenn/ungmenni og/eða þá sem náð hafa góðum árangri í tölti). 

2. Meira vanar - ætlaður konum sem eru töluvert vanar í keppni.

3. Minna vanar - ætlaður konum sem hafa litla reynslu í keppni, en þó einhverja.

4. Byrjendaflokkur - ætlaður konum sem eru að stíga sín fyrstu skref á keppnisvellinum eða hafa mjög litla reynslu.

ATH!
- Hafi keppandi sigrað í einhverjum styrkleikaflokki kvennatöltsins áður skal viðkomandi færast upp um flokk.
- Hafi keppandi komist þrisvar eða oftar í A-úrslit í einhverjum styrkleikaflokki kvennatöltsins áður skal viðkomandi færast upp um flokk.
Keppendur eru hvattir til að sýna metnað við val á keppnisflokki!

Í byrjendaflokki eru þrír keppendur saman í holli, sýnt er hægt tölt og tölt á frjálsri ferð, ekkert snúið við. Í öllum öðrum flokkum eru 2-3 keppendur saman í holli, sýnt hægt tölt, snúið við, tölt með hraðabreytingum og svo greitt tölt. A og B úrslit í öllum flokkum.

Aldurstakmark til þátttöku er 18 ár (miðað er við ungmennaflokkinn). Skráningargjald er kr. 4.500 á hest. Leyfilegt er að skrá fleiri en einn hest til þátttöku, en komi keppandi fleiri en einum hesti í úrslit skal hann velja einn hest til úrslitakeppni.

Skráning fer fram í gegnum www.sportfengur.com og stendur hún frá 9.-13. apríl nk.

Allar konur eru velkomnar, vegleg verðlaun í boði, vinalegt andrúmsloft og topp aðstæður til keppni. Þetta er mót sem enginn hestakona má missa af – takið daginn frá!"