föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Könnun um vilja og geðslag

12. október 2015 kl. 19:29

Álfhildur hlaut 10 fyrir vilja og geðslag á LM2014.

Vilji og geðslag er einn mikilvægasti eiginleikinn í mati á gæðum kynbótahrossa

"Þessa dagana er í gangi rannsókn á mati á vilja og geðslagi í kynbótadómum í íslenskri hrossarækt.

Markmið með þessari rannsókn er að kanna hversu vel núverandi matsaðferð í kynbótadómum lýsir hinu sanna geðslagi hestsins.

Vilji og geðslag er einn mikilvægasti eiginleikinn í mati á gæðum kynbótahrossa og því nauðsynlegt að hann sé metinn á sem bestan mögulegan hátt. Vonast er til að niðurstöður þessa verkefnis veiti innsýn í kosti og galla núverandi matsaðferðar og stuðli þannig að framþróun í mati eiginleikans.

Gagnasöfnun fyrir fyrsta hluta þessarar rannsóknar hefur þegar farið fram á völdum kynbótasýningum árin 2014 og 2015, þar sem kynbótaknapar voru beðnir um að svarað nokkrum spurningum um vilja og geðslag þeirra hrossa sem þeir sýndu á viðkomandi sýningum. Þessar spurningar áttu við hinn svokallaða sýningavilja hrossanna sem kemur fram á því stutta tímabili þegar hrossið er í dómi.

Nú er komið að öðrum hluta verkefnisins þar sem aðstandendur kynbótahrossa sem komu í dóm á árunum 2014-2015 eru beðnir um að leggja mat sitt á vilja og geðslag þessara hrossa í sínu daglega umhverfi. Inni á heimasíðu WorldFengs má finna tengil inn á stutta könnun sem aðstandendur eru beðnir um að fylla samviskusamlega út.

Lögð er áhersla á að aðstandendur komi sér saman um að sá aðili sem þekkir hrossið best, hvort sem það er eigandi, ræktandi eða þjálfari, taki að sér að svara könnuninni í samráði við hina. Einungis verður hægt að svara einu sinni fyrir hvert sýnt hross, að undanteknum þeim hrossum sem sýnd voru bæði árin (2014 og 2015), en í þeim tilvikum verður hægt að svara fyrir hvort árið um sig. Möguleiki er að sleppa einstaka spurningum ef upplýsingar liggja ekki fyrir, en lögð er áhersla á að spurningum sé svarað eftir fremsta megni.

Vefslóð: http://www.worldfengur.com/main.jsp

(Tengil inn á könnunina má finna í stikunni til vinstri þegar búið er að skrá sig inn) 

Könnunin verður opin til miðnættis sunnudaginn 22. nóvember 2015.

Aðstandendur eru eindregið hvattir til að taka þátt í þessari könnun og leggja þannig sitt af mörkum til framþróunar í íslenskri hrossarækt.   

Þess ber að geta að farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál og nöfn einstakra hrossa munu hvergi koma opinberlega fram. Þátttakendur eru því hvattir til að svara spurningum eins heiðarlega og kostur er og stuðla þannig að marktækum niðurstöðum rannsóknarinnar."

Fyrirspurnir sendist á póstfangið heidrunrun@gmail.com.

Með einlægri þökk og von um gott samstarf

Heiðrún Sigurðardóttir
MSc. nemi í kynbótafræðum við Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar í Uppsölum