fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komið við að Björgum og í Litla-Garði

16. apríl 2015 kl. 12:16

Frá ræktunarbúinu Björg í Hörgárdal.

Heimsókn til ræktunarbúa á Norðurlandi um helgina.

Helgin 17-19 apríl verður hlaðin hestatengdum viðburðum á Akureyri og í nærsveitum, samkvæmt tilkynningu frá hestamannafélaginu Létti.  Á föstudagskvöldinu verður stórsýningin Fákar og fjör kl. 20.
Á laugardeginum verða ræktunarbú heimsótt (kl. 10:30) léttur kvöldverður (2000 kr.) og að lokum hin magnaða Stóðhestaveisla kl. 20:00.

Rútan í ræktunarbúheimsóknirnar fer frá Léttishöllinni. kl. 10:30 og kostar hvert sæti 2000 kr. skráning er á lettir@lettir.is 

Meðal þeirra ræktunarbúa sem heimsótt verða eru Björg og Litli-Garður.

"Hrossaræktarbúið Björg er í Hörgárdal um 10 km. frá Akureyri.  Þar búa c.a. 70 hross á öllum aldri í góðu yfirlæti.  Á Björgum er aðalega stunduð hrossarækt en lítið sauðfjárbú er einnig í fullum blóma á jörðinni.  Ábúendur á jörðinni eru Björg 1 – Viðar og Ólafía og Björg 2 – Sigmar og Anna.  Viðar og Ólafía eru aðal hrossaræktendurnir á jörðinni en Sigmar er í fullri vinnu á Akureyri og stundar hestamennskuna í frítímum.  Á Björgum er mjög góð aðstaða, hesthús sem hýsir 50 hross auk reiðhallar sem er um 1000 fm. og byggist starfsemin á tamningu og þjálfun eigin hrossa en einnig hefur Viðar verið að taka örfá hross að sér í tamningu.  Viðar og Ólafía eru að fá 4 – 6 folöld á ári og er markmiðið að rækta geðgóða einstaklinga með góðar gangtegundir og helst “keppnis”.  Heimasætan á Björgum 1 er Fanndís Viðarsdóttir og hefur hún tekið hestamennskuna alla leið og er nú á sínu fyrsta ári í Hólaskóla. Heimasíða búsins er www.bjorg1.is og þar er reynt að setja það helsta inn reglulega," segir um búið.

 Hrossaræktarbúið Litli-Garður er í Eyjafjarðarsveit um 23 km sunnan við Akureyri. Í Litla-Garði búa Herdís Ármannsdóttir og Stefán Birgir Stefánsson og eiga þau 3 börn Hafþór Magna, Nönnu Lind of Sindra Snæ en einungis Sindri Snær er enn í hreiðrinu.  

"Segja má að ræktunin þeirra sé gamalgróin því nánast allar ræktunarhryssunar eru frá Árgerði í Eyjafirði en rúmlega  50 ár eru síðan að Magni Kjartansson og Þórdís Sigurðardóttir hófu þar ræktun. 
Herdís er uppalin í Árgerði og eru þessi bú rekin að hluta til sem eitt.
Í dag er hægt að rekja allar ættir Litla-Garðshrossanna til Snældu (4154) frá Árgerði en hún stóð efst í flokki hryssna 6 vetra og eldri á Landsmótinu Skógarhólum 1978 . Á LM á Vindheimamelum 1990 hlaut hún heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.  Í dag er því ættbogi hennar orðin gríðarstór.
Í Litla-Garði fæðast 7 til 9 folöld á ári. Mikil áhersla er lögð á gott geðslag, fótahá og falleg hross með góðum gangskilum. Eru hross Litla-Garðhjóna ýmist kennd við Litla-Garð eða Árgerði. 
Hafa mörg afburðagóð kynbóta og keppnishross komið frá búunum á liðnum árum. Nýjasta stjarna og flaggskip búanna er Gangster frá Árgerði (a.e. 8,63).
Í Litla-Garði er rekin tamningarstöð allt árið um kring með tveimur tamningarmönnum auk Stefán Birgirs. Hann sér um allar tamningar og sýningar fyrir búin,  auk þess sem fjöldi aðkomuhrossa er alltaf í tamningu og þjálfun. Í Litla-Garði eru 30 einhesta stíur.
Litli-Garður hlaut titilinn ræktunarbú ársins 2014 hjá HEÞ. 
Heimasíða Litla-Garðs og Árgerði er http://litli-gardur.is," segir í tilkynningu.