mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komið nóg af hreppapólitík í Landsmótsmálum

7. apríl 2010 kl. 11:14

Vill byggja upp einn boðlegan Landsmótsstað hestamanna

„ Það er kominn tími til að hætta þessari hreppapólitík og að einbeitum okkur að því að byggja upp Landsmótsstað sem getur tekið á móti áhorfendum, keppendum og hrossum svo sómi sé að.“ Þetta segir Erlingur Erlingsson, kybótaknapi ársins 2009 í viðtali í stóðhestablaði Hesta&Hestamanna, sem kemur út nú í apríl.

Erlingur fer um víðan völl í viðtalinu, ræðir mikið um tamningaaðferðir reiðmennsku, en hefur líka skoðanir á Landsmótsmálum. Hann segir athugandi að byggja upp nýjan stað, til dæmis í Borgarfirði, — eða fara norður á Hóla í Hjaltadal:

„Við megum ekki gleyma því að Landsmót hestamanna er með stærri hestamótum sem haldin eru í heiminum. Ég gæti til dæmis alveg séð fyrir mér einhvern stað í Borgarfirði. Hann er miðsvæðis ef tekið er mið af þeim svæðum þar sem iðkendur eru flestir — á Norður- og Suðurlandi. Síðan má ekki gleyma Hólum í Hjaltadal. Þar hefur þegar átt sér stað uppbygging sem litlu þarf að bæta við til að fullnægja þeim kröfum sem ég nefndi. Og Hólar eru úti í sveit, ef það er eitthvert aðalatriði.“