miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kófsveittir og skjálfandi hestar á kerrum

odinn@eidfaxi.is
28. nóvember 2014 kl. 09:02

Því miður kemur það fyrir að hestakerrur velta.

Stikkorð

hestaslys

Tengt efni

Konur í meirihluta

Andlega álagið skiptir máli, enda eru hestar skyni gæddar verur.

Í grein á netinu skrifar Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands eftir farandi:

Það er áhyggjuefni að á hverju ári berast fréttir af hestakerrum með hestum innanborðs sem velta, eða slitna aftan úr bílum, að hestar detti úr kerrum, að þeir drepist og slasist. Hér er dæmi um raunverulega fregn úr fjölmiðlum; „Stór hestakerra, sem dregin var af jeppabifreið, valt síðdegis í dag. Eitt af fjórum hrossum sem voru í kerrunni drapst þegar það varð undir kerrunni. Hin þrjú hrossin voru teymd heim að bæ. Að sögn sjónarvotta voru þau eitthvað blóðug…“

Hestakerrur eru einfaldlega skráðar sem eftirvagnar og skoðaðar sem slíkar, svo sem bremsubúnaður og burðarþol. Um skráða eftirvagna gildir að aka má með þá á 80 km hraða að hámarki. Þegar lifandi dýr er flutt ættu menn auðvitað að aka sérstaklega varlega. Svo refsisöm er umferðin, að ef ekið er á löglegum hraða þá er stundum flautað af öðrum vegfarendum. En það eru fyrst og fremst hestarnir sem líða, þegar hinn óþolinmóði flautar á hinn ábyrga. Hinn almenni ökumaður verður að gera ráð fyrir hestakerrum og farþegum þeirra. 

Iðulega er hins vegar ekið á „venjulegum umferðarhraða“ með hestakerrur í eftirdragi, sem er allt of hratt. Slíkt tillitsleysi veldur hestunum vanlíðan en þeir geta einnig meiðst inni í kerrunum við óvarlegan akstur. Andlega álagið skiptir máli, enda eru hestar skyni gæddar verur. Hér á aldrei að hafa í flimtingum að „þeir verði bara að venjast þessu“ og aka svo á fullri ferð, með beygjur og bremsun í stíl. Því miður virðist það oft gert – af hestamönnum. Skýtur þetta ekki skökku við?

Það er kominn tími til að endurskoða hvernig hestamenning okkar hefur þróast um þessi mál. Þau okkar sem ábyrg erum: hnippum í hina sem hafa ekki áttað sig á þessu. Samtal um góða meðferð á dýrum á alltaf rétt á sér. Þetta er mál okkar allra, hestamanna og líka annarra.

Hestar eru fluttir landshorna á milli í hestakerrum í hundraðatali ár hvert. Þeir hafa ekki forsendur til að skilja hvað er að gerast með sama hætti og við – en þeir þurfa samt að venjast því. Helst á eðlilegum forsendum.

Veltið fyrir ykkur af hverju hestar koma stundum kófsveittir og skjálfandi út úr kerrum eftir flutning.