sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Knapar óduglegir að mæta"

odinn@eidfaxi.is
27. febrúar 2014 kl. 22:03

Olnboga ágrip keppnishrossa eru vaxandi vandamál á hörðum sýningavöllum.

Formaður fagráðs segir erfitt að ná eyrum knapa

Í máli sínu um áverkamál á hringferðarfundi Fagráðs í Hrossarækt sem haldin var í Fákaseli sagði Sveinn Steinarsson formaður fagráðs ýmislegt vera í deiglunni til að vinna á því meini sem áverkar í kynbótasýningum eru.

Meðal þess sem gert verður á sýningum á komandi sumri er að skráð verður niður hvaða hlífar eru notaðar, við hvaða beislisbúnað riðið er og jafnframt þess óskað að knapar gefi upp hvort þeir hafi þjálfað það hross sem sýnt er. Þetta er gert til að safna ítarlegri gögnum um það sem getur gefið betri mynd af þeim orsakaþáttum sem valda áverkum.

Fram kom hjá Sveini að hann telur knapa óduglega við að mæta á fundi þar sem þessi mál eru rædd og leita þurfi leiða til að fá þá betur að borðinu. “Við verðum með einhverjum hætti að ná betur til knapanna, en það eru þeir sem eiga að meta hve hart er hægt að leggja að hrossum í kynbótasýningum” sagði Sveinn.

Kristbjörg Eyvindsdóttir á Auðsholtshjáleigu sagði nauðsynlegt að skoða málin vel og rétt væri að rannsaka orsakaþætti betur. Máli sínu til stuðnings sagði hún frá rannsókn sem Sonja Líndal dýralæknanemi sé að vinna þar sem meðal annars kemur fram að munnáverkar finnist í tryppum áður en þau komi til tamningar. Undir þetta tók Sveinn og sagði rétt að stíga varlega en örugglega í átt að því að fækka áverkum.