sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Knapar ársins heiðraðir á Norðurlöndum-

15. desember 2011 kl. 12:59

Knapar ársins heiðraðir á Norðurlöndum-

Af meginlandinu berast tilkynningar um heiðraða afreksknapa, og meirihlutinn þeirra eru konur.

Heimsmeistarinn Anne Stine Haugen var valinn knapi ársins í Noregi, en hún sigraði eftirminnilega fjórgangskeppni Heimsmeistaramótsins á hesti sínum Muna frá Kvistum. Knapi Ljósvaka frá Akureyri, Stine Helene Sørvåg,  var heiðruð sem ungmenni ársins og hin 16 ára gamla Sara Helene Halvorsen var ungknapi ársins. Norðmenn völdu einnig kynbótahesta ársins og var Tígull frá Kleiva valinn stóðhestur ársins í flokki norskfæddra hesta og Von frá Vigra var kjörinn norksfædda hryssa ársins, en hún sigraði elsta flokk hryssa á HM. Lettir fra Hellesylt fékk titilinn stóðhestur ársins og Gná fra Jakobsgården hryssa ársins.

Í Danmörku voru kvenknapar heiðraðar í öllum flokkum. Knapi ársins var hin tvítuga Ditte Søeborg en hún hefur m.a. náð feykigóðum árangri á keppnisvellinum á hestinum Dár frá Kjartansstöðum. Gæðingaknapi ársins var kjörin Stephanie Nielsen, skeiðknapi ársins var heimsmeistarinn Tania Højvang Olsen, kynbótaknapi ársins Mathilde Landt og Caroline Grønbek Nielsen var kjörin efnilegasti knapi ársins.

Í Svíþjóð var Magnús Skúlason kjörinn íþróttaknapi ársins, en hann er ríkjandi heimsmeistari í fimmgangi eftir frækinn sigur á Hraunari sínum frá Efri-Rauðalæk. Sigfús Sigfússon var valinn gæðingaknapi árins og Linda Antonsson ungknapi ársins. Þá var Vignir Jónasson heiðraður sem kynbótaknapi ársins og knapi ársins en hann sýndi Prins från Knutshyttan sem var valið kynbótahross ársins og kemur það lítið á óvart, er hæst dæmda kynbótahrossið þar ytra í ár, hlaut stórkostlega 8,72 í aðaleinkunn, 8,65 fyrir kosti og 8,81 fyrir sköpulag á Heimsmeistaramótinu. Þá var Knutshyttan valið ræktunarbú ársins í Svíþjóð.