laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Knapar ársins 2009

Jens Einarsson
25. september 2009 kl. 11:37

Margir tilnefndir - Fáir útvaldir

Það verður ekki auðvelt valið á knöpum ársins í þetta skiptið. Sjaldan hafa jafnmargir knapar náð góðum árangri, sérstaklega í íþróttakeppninni. Keppendum sem ná árangri fjölgar stöðugt. Fleiri leggja mikið undir, kaupa góða hesta og fórna fé og tíma í íþróttina. Allmarga má nefna sem skarað hafa fram úr. Tekið skal fram að hér er ekki verið að birta lista sem unninn er út frá fyrirliggjandi gögnum og eru knapar sem ekki eru nefndir en ættu að vera það beðnir velvirðingar.

Í vali á íþróttaknapa er rökrétt er að byrja á Jóhanni Skúlasyni sem varð heimsmeistari í tölti og samanlagður heimsmeistari í fjórgangsgreinum. Þá má nefna Viðar Ingólfsson, sem varð Íslandsmeistari í tölti. Daníel Jónsson, Íslandsmeistara í fimmgangi og í úrslitum á HM09. Snorra Dal, Íslandsmeistara í fjórgangi og landsliði Íslands á HM09. Ástu Bjarnadóttur, í úrslitum í tölti og fjórgangi á HM09. Rúnu Einarsdóttur, í öðru sæti í fimmgangi og T2 á HM09, Halldór Guðjónsson, sigurvegara í tölti á FM09, Eyjólf Þorsteinsson, sem kom víða við í íþróttakeppninni á árinu, Lenu Zielinski, Þorvald Árna Þorvaldsson, Elvar Þormarsson, Huldu Gústafsdóttur, Sigga Sig., Árna Björn Pálsson, Berglindu Rósu Guðmundsdóttur, Mette Mannseth. Fleiri mætti nefna.

Nokkrir knapar áttu góðan leik í gæðingakeppninni. Sigurbjörn gamli Bárðarson sigraði í A flokki á gæðingamóti Fáks og Meistaramóti Andvara. Guðmundur Björgvinsson sigraði tvölfalt, í A og B flokki á opnu gæðingamóti Geysis. Bjarni Jónasson sigraði með virðuleik í B flokki á FM09. Erlingur Invarsson varð efstur í A flokki á FM09. Jakob Sigurðsson og Tryggvi Björnsson komust einnig á blað. Ekki var Landsmót á þessu ári, sem jafnan hefur mikið vægi í vali á gæðingaknapa.

Í skeiðinu kemur koma tveir sterklegastir til greina. Beggi Eggertsson sem hampar heimsmeistaratitli frá því á HM09 og frábærum tíma, 21,01 sekúndu. Hann varð og þriðji í 100 metra skeið á HM09 á 7,47 sekúndum. Þá Sigurbjörn Bárðarson, sem á besta tíma í 250 og 150 metra skeiði hér á landi á árinu, Íslandsmeistari í 250 m skeiði, með meiru. Ótrúlegt ár hjá hinum 57 ára gamla keppnismanni. Fleiri koma til greina sem tilnefndir: Árni Björn Pálsson, Teitur Árnason, Valdimar Bergstað, Erling Sigurðsson, Siggi Sig., Mette Mannseth, Hinrik Bragason, og fleiri. Þess má geta að Valdimar Bergstað átti frábæran leik á HM09. Hann keppir í ungmennaflokki.

Kynbótaknapar ársins eru sígildir og næsta víst að skytturnar þrjár, Daníel Jónsson, Erlingur Erlingsson og Þórður Þorgeirsson verða tilnefndir. Þórður mun þó eiga erfitt uppdráttar vegna agabrots á HM09. En einnig má gera ráð fyrir að svipast verði um eftir knapa sem hefur komið með nýtt innlegg í reiðmennskuna á kynbótabrautinni. Þeim fjölgar sem vilja sjá breytingar þar.

Eins og sjá má af þessari upptalningu gæti það vafist fyrir valnefndinni hver er verðugastur að hampa titlinum “Knapi ársins”. Einnig efnilegasti knapi ársins. En það kemur allt í ljós á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember.