mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Knapamerkin

8. apríl 2014 kl. 11:00

Þann 1 apríl sl. voru þreytt próf í Knapamerki 5 hjá Hestamannafélaginu Létti á Akureyri og hér má sjá nokkra nemendur ásamt kennara sínum Linu Erikson.

Fleiri nemendur enn oft áður

Fleiri nemendur en oft áður hafa stundað nám í Knapamerki 5 þetta árið. Á síðustu vikum hefur uppskeran verið dæmd og árangur nemenda, hesta og reiðkennara hefur aldrei verið betri frá því að Knapamerkin hófu göngu sína. Merkja má ótrúlegar framfarir í hestakosti, framkvæmd reiðkennslu og prófa og síðast en ekki síst metnaði knapa til að standa sig vel í þessu krefjandi prófi. Það má því segja að viðmiðið hafi verið hækkað þetta árið. Hátt í 30 próf hafa verið dæmd og flestöll staðin með sóma.

Þess má geta að í nýjum aðgangsviðmiðum Háskólans á Hólum er tekið fram að próf í Knapamerki 5 sé eitt af þeim viðmiðum sem skólinn tekur með í reikninginn þegar umsóknir í skólann eru skoðaðar og prófið metið nemendum í hag þegar sótt er um inngöngu í skólann.

Hestamannafélagið Skuggi í Borgarnesi setti met í nemendafjölda í Knapamerki 5 þetta vorið en þar tóku 11 nemendur prófið undir öruggri handleiðslu kennara síns Heiðu Dísar Fjeldsted. Og það var ekki nóg með að margir mættu til prófs í Borgarnesi heldur náðu allir prófinu með sóma. Segja má að þessi fríði hópur hjá Skugga hafi sett ný viðmið í Knapamerki 5 og var alveg sérstaklega gaman að dæma þessi próf þar sem fagmennska var í fyrirrúmi að öllu leyti.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í nýafstöðnum prófum.


Nemendur frá Hestamannafélaginu Fáki en þar þreyttu 4 knapar próf í Knapamerki 5.


Nemendur frá Hestamannafélaginu Skugga í Borgarnesi – létt í lund að nýafstöðnu prófi.


Prófdómarar, Helga Thoroddsen og Randi Holaker, í góðu yfirlæti að dæma.