mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Klerkur í stuði á Gaddstaðaflötum

Jens Einarsson
29. júlí 2010 kl. 16:03

Eyjólfur Þorsteinsson með tvö efstu í B flokki

Eyjólfur Þorsteinsson er með tvö efstu hross í B flokki gæðinga á Stórmóti Geysis eftir forkeppni. Efstur er stóðhesturinn Klerkur frá Bjarnanesi (8,61), sem er undan hinum miklu klárhrossum Snældu frá Bjarnanesi og Glampa frá Vatnsleysu. Í öðru sæti er Ósk frá Þingnesi (8,54), sem er undan Sveini-Hervari frá Þúfu og Ógát frá Þingnesi, Hrafnsdóttur frá Hrafnhólum.

Fast á hæla Klerks og Óskar koma blússandi gæðingar. Einkunnir sex efstu hrossa eru jafnar. Borði frá Fellskoti er þriðji með 8,53, knapi Sigursteinn Sumarliðason, Sveigur frá Varmadal fjórði með 8,50, knapi Hulda Gústafsdóttir, í fimmta sæti Þöll frá Garðabæ með 8,50, knapi Þórdís Gunnarsdóttir, og í sjötta sæti Bruni frá Hafsteinsstöðum með 8,48, knapi Anna Valdimarsdóttir.

Dagskrá á Gaddstaðaflötum hefst aftur klukkan sjö í fyrramálið með yfirlitssýningu kynbótahrossa. Spáð er prýðilegu veðri, hægri austanátt og hálfskýjuðu.