miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Klerkur blessar KS-deildina

17. febrúar 2011 kl. 14:51

Eyjólfur Þorsteinsson og Klerkur frá Bjarnanesi.

Eyjólfur Þorsteinsson efstur í fjórgangi

Rósberg Óttarsson:

Það var þétt setinn bekkurinn í Svaðastaðahöllinni í gærkvöldi þegar Meistaradeild Norðurlands hófst með fjórgangi. Bestu knapar Norðurlands voru mættir til leiks og hestakostur hinn besti. Eftir forkeppnina stóð Eyjólfur Þorsteinsson efstur á Klerki frá Bjarnanesi með 7,23 en Ólafur Magnússon á Gáska frá Sveinsstöðum kom næstur með 6,90.

Þar á eftir voru jafnir Bjarni Jónasson á Kommu frá Garði og Árni Björn Pálsson á Furu frá Enni. Þeir náðu beint inn í A úrslit en í B úrslitunum börðust Tryggvi Björnsson á Punkt frá Varmalæk, Sölvi Sigurðarson á Ögra frá Hólum, Þórarinn Eymundsson á Þey frá Prestsbæ, Mette Mannseth á Storm frá Herríðarhóli og Hörður Óli Sæmundsson á Línu frá Vatnsleysu. Svo fór að Tryggvi og Punktur sigruðu og tryggðu sér þáttökurétt í A úrslitum.

Það var mikil spenna í A úrslitunum þar sem Ólafur og Gáski höfðu forustuna eftir hæga töltið og brokkið en Eyjólfur saxaði á hann og eftir fetið var hann kominn með forustuna sem hann lét ekki af hendi eftir það og sigraði nokkuð örugglega. Tryggvi Björnsson hélt áfram að vaxa og krækti í annað sætið.

Eyjólfur var að vonum kampakátur með sigurinn en hann hefur nú sigrað fjórganginn bæði í K.E.A. mótaröðinni á Akureyri og nú í K.S. deildinni. „ Þetta gekk virkilega vel og ég er mjög sáttur. Ég er vel settur með keppnishesta og mæti með Kommu frá Bjarnanesi í töltið í K.E.A. mótaröðinni næst og eins á Bautatöltið um helgina. Það er ómetanlegt að hafa aðgang að hrossum eins og Kommu og Klerk og ég er virkilega þakklátur fyrir það góða samstarf sem ég á við Olgeir Ólafsson eiganda þeirra og það traust sem hann sýnir mér.“  Er ljóst á hvaða hrossi þú mætir í fimmganginn sem er næsta grein í K.S. deildinni? „ Já ég mæti með að öllu óbreyttu með Ögra frá Baldurshaga,“ sagði Eyjólfur að lokum.

A úrslit
1 Eyjólfur Þorsteinsson Klerkur frá Bjarnanesi 7,57
2 Tryggvi Björnsson Punktur frá Varmalæk 7,27
3 Bjarni Jónasson Komma frá Garði 7,23
4 Ólafur Sveinsson Gáski frá Sveinsstöðum 7,20
5 Árni Björn Pálsson Fura frá Enni 6,87

B úrslit
6 Tryggvi Björnsson Punktur frá Varmalæk 7,00
7 Mette Mannseth Stormur frá Herríðarhóli 6,53
8-9 . Hörður Óli Sæmundarson Lína frá Vatnsleysu 6,50
8-9. Sölvi Sigurðarsson Ögri frá Hólum 6,50
10 Þórarinn Eymundsson Þeyr frá Prestsbæ 6,30