miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kjarvalsdætur gefa gott

21. apríl 2010 kl. 11:38

Blúnda frá Kílhrauni sallar niður gæðingum

Dætur Kjarvals frá Sauðárkróki eru hægt og bítandi að sanna sig sem kynbótahryssur. Er það ekki síst hin kjarkmikla, stillta og einarða lund og vilji Kjarvals, sem er að skila sér í gegn. Einn þessara hryssna er Blúnda frá Kílhrauni, sem nú er í eigu Magnúsar Svavarssonar á Blesastöðum. Sem er manna þefvísastur á góða erfðavísa.

Blúnda er fyrstu verðlauna hryssa, sýnd af Reyni Aðalsteinssyni árið 2000. Þrjú afkvæmi hennar hafa hlotið fyrstu verðlaun. Tvö þeirra, Alfa Orradóttir og Fláki Gígjarsson frá Blesastöðum, slógu í gegn á stóðhestasýningu í Rangárhöllinni fyrir skömmu. Alfa er úrtöku töltari með 9,5 fyrir tölt. Eigandi hennar er Norðmaðurinn Ingjald Åm.

Fláki er alhliða gæðingur með frábært skeið. Hann er að vísu ekki með einkunn fyrir það, þar sem hinn snjalli knapi Þórður Þorgeirsson gleymdi því í sýningu í fyrra. Það lá hins vegar ekkert í gleymsku í Rangárhöllinni og verður spennandi að sjá hvað þessi foli gerir í vor og sumar.