þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kippur í fósturvísaflutningum

Jens Einarsson
1. september 2010 kl. 10:00

Tvær tæknifrjóvgunarstöðvar á Suðurlandi

Kippur hefur verið í sæðingum og fósturvísaflutningum milli hryssna á Suðurlandi í sumar. Guðmar Aubertsson, dýralæknir á Sandhólaferju, hefur sætt nokkra tugi hryssna og það stefnir í að 20-30 fósturvísaflutningar verði framkvæmdir áður en tímabilinu lýkur. Honum til aðstoðar er þýskur sérfræðingur á sviði tæknifrjóvgana, Petra Koblinski.

Fósturvísaflutningar hafa verið framkvæmdir á Hólum í Hjaltadal í allmörg ár og Höskuldur Jensson, dýralæknir á Nautabúi í Skagafirði, hefur framkvæmt 8-10 slíka í sumar. Hann hefur einnig veitt forstöðu sæðingastöð á Dýrfinnustöðum í Skagafirði undanfarin sumur og þar voru sæddar á milli 50 og hundrað hryssur.

Ellert Þór Benediktsson, dýralæknir á Dýralæknamiðstöðinni á Hellu, hefur einnig boðið hryssueigendum á Suðurlandi upp á fósturvísaflutninga í sumar og fyrrasumar.

Áhugi hryssueigenda á Suðurlandi á fósturvísaflutningum hefur aukist eftir að farið var að bjóða upp á þjónustuna sunnan heiða. Akkurinn sem menn sjá í þessari dýru framkvæmd er að hún gefur möguleika á að ala undan ungum og efnilegum hryssum; láta aðrar hryssur ganga með afkvæmin en þjálfa þær ungu áfram. Sýna þær og keppa á þeim.