laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kiljan frá Steinnesi með nýjan knapa

odinn@eidfaxi.is
20. desember 2013 kl. 11:19

Kiljan frá Steinnesi er með hæstu aðaleinkunn kynbótahrossa sem þegar hafa náð lágmörkum inn á LM2011, 8,71. Knapi er Þorvaldur Árni Þorvaldsson.

Enn fréttir af knapabreytingum okkar fremstu hesta.

Enn berast fréttir af landsþekktum gæðingum sem skipta um þjálfara. Í gær var frétt hér á vefnum um nýjan knapa á gæðingnum Stimpli frá Vatni en nýjustu fréttir eru af frænda hans Kiljan frá Steinnesi.

Nú hefur hann verið fluttur á milli bæja í Ölfusinu og verður í þjálfun í vetur hjá Hans Þór Hilmarssyni sem nýlega hóf störf á Ingólfshvoli. Hans Þór var í úrslitum í A-flokki gæðinga á síðasta Landsmóti á einu hryssu úrslitanna Lottu frá Hellu. Enduðu þau í fjórða sæti eftir að hafa velgt efstu hrossum undir uggum.

Lotta frá Hellu er nú í folaldseignum, en við tekur Kiljan sem helsti keppnishestur Hans Þórs.

Kiljan er flestum hestaunnendum góðu kunnur en fyrst vakti hann athygli fjögurra vetra gamall þegar hann varð annar í 4 vetra flokki stóðhest á LM2008 á Hellu þá setinn af Agnari Þór Magnússyni. Seinna tók Þorvaldur Árni við þjálfuninni og sýndi hann í sinn hæsta kynbótadóm 8,78 í aðaleinkunn og þar af 9,07 fyrir kosti.

Kiljan stendur vel í kynbótamati með 126 stig í aðaleinkunn og sex dæmd afkvæmi. Afkvæmi hans hafa vakið talsverða athygli en þrjú af sex dæmdum afkvæmum hans hafa hlotið 1.verðlaun 4 vetra gömul. Fremstur fer það gæðingurinn Laxnes frá Lambanesi en eins og fram koma á Eiðfaxa þá skipti hann nýlega um eigendur og er nú í þjálfun á Króki í Ásahrepp.

Samkvæmt heimildum Eiðfaxa hafa eigendur Kiljans ekki útilokað að stefnt verði á að hesturinn komi fram með afkvæmum en ef það tækist þá hlyti hann 1.verðlaun fyrir afkvæmi aðeins 10 vetra gamall.

"Stefnan er fyrst og fremst á að þjálfa hestinn í vetur og sjá til hvað verður" segir Hans Þór þegar hann er inntur eftir tilætlunum með Kiljan í vetur.