sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kepppnistímabilið í hestaíþróttum að hefjast

Jens Einarsson
7. janúar 2011 kl. 13:24

Fyrsta mót í Meistaradeild 27. janúar

Knapar eru nú óðum að koma sér í stellingar. Mótaskrá ársins er þéttskrifuð: Meistaradeildir á Norðurlandi og Suðurlandi, Landsmót í Skagafirði, Íslandsmót í hestaíþróttum á Selfossi, HM2011 í Austurríki, auk allra hinna mótanna sem eru fleiri en eitt og fleiri en tvö i nánast hverri viku flesta mánuði ársins.

Fyrsta mót Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum í Ölfushöllinni fer fram 27. janúar. Þá verður keppt í fjórgangi. Kristinn Skúlason, formaður stjórnar deildarinnar, segir að undirbúningur sé á lokastigi. Enginn einn aðal styrktaraðili sé að deildinni nú, en þrír stærri styrktaraðilar muni bera hitann og þungann af rekstri hennar. Nafn deildarinnar verður því einfaldlega Meistaradeild í hestaíþróttum. Á næstu dögum mun ný heimasíða deildarinnar verða opnuð á vefnum á slóðinni: www.meistaradeild.is.

Liðin í deildinni verða sjö eins og undanfarin ár. Þau verða öll kynnt í sérstakri hátíðardagskrá sem fram fer í tengslum við fyrsta mót deildarinnar þann 27. janúar. Öll mótin í mótaröðinni verða kvikmynduð og send út beint á Netið. Þættir um mótin verða sýndir á RÚV eins og undanfarin ár.