miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Keilir á ís í Berlín

Jens Einarsson
3. september 2009 kl. 11:40

Sigurður V. Matthíasson stórhuga

Keilir frá Miðsitju mun keppa á Ísmótinu í Berlín næsta vetur ef áætlanir ganga eftir. Sigurður V. Matthíasson, keypti hestinn nýlega ásamt tveimur fjölskyldum í Hollandi. Nýtt heimili Keilis verður í Hollandi en hann verður leigður út til hinna ýmsu landa á meginlandinu.

Viðskiptatækifæri á meginlandinu

Sigurður, sem á 25% í Keili, segir að það hafi lengi verið draumur sinn að gera út góða stóðhesta í útlöndum. Keilir sé enn á góðum aldri, frjósamur og við góða heilsu.

„Það eru ótvírætt viðskiptatækifæri í útgerð stóðhesta á meginlandinu, ef maður er í samstarfi við gott fólk þar,“ segir Sigurður. „Ég held að það sé oft á tíðum mun skynsamlegra fyrir Íslendinga að eiga hestana áfram í útlöndum heldur en selja þá. Margir stóðhestar eru eftirsóttir ytra þótt aðsókn í þá sé farin að dala hér heima. Folatollar eru yfirleitt hærri ytra og umsetningin í kring um hvern stóðhest meiri. Sem að hluta skýrist af meiri þjónustu sem er innifalin í folatollinum.“

Sigurður segir að Keilir verði járnaður í haust og þjálfaður hér heima fram að Ísmótinu í Berlín. Hugmyndin sé að kynna hann á Ísmótinu, enda sé það fjölsótt af hestafólki frá Skandinavíu, Austurríki, Hollandi og Sviss. Að lokum má minna á að Keilir er ekki nýliði á ís. Vann eitt sinn hinn eftirsótta Ístölts bikar í Skautahöllinni í Laugardal.