miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

KEA mótaröðin hafin

10. febrúar 2012 kl. 09:12

Keppendur í A úrslitum í fjórgangi á fyrsta móti KEA mótaraðarinnar á Akureyri. Mynd/Rósberg

Baldvin Ari sigrar í fjórgangi

K.E.A mótaröðin hófst í gærkvöldi í Top Reiter höllinni á Akureyri og var fyrsta keppnisgreinin fjórgangur. 38 hross voru skráð til leiks og svo fór að Baldvin Ari Guðlaugsson sigraði á Senjor frá Syðri- Ey eftir mikla baráttu við Viðar Bragason og Björgu frá Björgum.

Það var strax ljóst í forkeppninni að það stefndi í spennandi kvöld þar sem mörg sterk hross voru mætt til leiks. Baldvin og Viðar voru efstir eftir forkeppnina og tryggðu sér sæti í A- úrslitum ásamt Linneu Brofeld sem mætti til leiks með Logar frá Möðrufelli og Þorvari Þorvaldssyni á Eini frá Ytri- Bægisá. Í B- úrslitum börðust Elvar Einarsson á Óperu frá Brautarholti, Líney María Hjálmarsdóttir á Þyt frá Húsavík, Stefán Friðgeirsson á Svani Baldri frá Litla- Hóli og hjónin Helga Árnadóttir og Guðmundur Tryggvason, Helga með Þrumu frá Akureyri og Guðmundur með Ás frá Skriðulandi. Svo fór í B- úrslitunum að Líney og Þytur sigruðu með einkuninna 6,70.

Barátta Baldvins og Viðars hélt áfram í A- úrslitum og ljóst var að hver mistök voru dýrkeypt. Í yfirferðartöltinu réðust úrslitin þar sem Baldvin og Senjor höfðu betur og sigruðu að lokum eftir spennandi úrslit. Líney María og Þytur skutust uppí þriðja sætið og Þorvar á Eini varð fjórði en Linnea rak lestina á Logari.

Það er óhætt að segja að þessi byrjun á K.E.A mótaröðinni lofi góðu um framhaldin en öll umgjörð var til fyrirmyndar sem og dómgæslan. Einnig var ánægjulegt að sjá hve mörg hrossana voru góð miðað við árstíma.

KEA-mótaröð fjórgangur - A-úrslit

1 Baldvin Ari Guðlaugsson / Senjor frá Syðri-Ey 7,07
2 Viðar Bragason / Björg frá Björgum 7,03
3 Líney María Hjálmarsdóttir / Þytur frá Húsavík 6,77
4 Þorvar Þorsteinsson / Einir frá Ytri-Bægisá I 6,63
5 Linnea Brofeld / Logar frá Möðrufelli 6,33

KEA-mótaröð fjórgangur - B-úrslit

 1 Líney María Hjálmarsdóttir / Þytur frá Húsavík 6,70
2 Stefán Friðgeirsson / Svanur Baldur frá Litla-Hóli 6,53
3-4 Helga Árnadóttir / Þruma frá Akureyri 6,50
3-4 Elvar Einarsson / Ópera frá Brautarholti 6,50
5 Guðmundur Karl Tryggvason / Ás frá Skriðulandi 5,90