þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

KB mótaröðin 2011

11. janúar 2011 kl. 23:19

KB mótaröðin 2011

Nú styttist í að KB mótaröðin hefst. Hér er dagskrá hennar:..

Dagskrá;
5. feb. Fjórgangur
26. feb. Gæðingakeppni (A-og B-flokkur)
19.mars Tölt og fimmgangur

KB-mótaröðin er opin liða- og einstaklingskeppni í hestaíþróttum sem haldin er á vegum hestamannafélaganna Faxa & Skugga í reiðhöllinni Faxaborg í Borganesi.

Fyrir þá sem ætla sér að vera með í liðakeppninni, þá þarf hvert lið að hafa sitt sérkenni og verða sérstök verðlaun veitt því liði sem þykir hafa sýnt skemmtilegustu liðsheildina. Auk þess verða 3 stigahæstu liðin verðlaunuð í lokin.

Gunnhildur Birna Björnsdóttir sá um að taka myndir af KB mótaröðinni veturinn 2010 og er hægt að skoða myndir á tenglinum hér að neðan.
http://picasaweb.google.com/gunnhildurbirna

Samantekt frá síðastliðnum vetri.
Þátttaka á mótin var mjög góð og ljóst er að þessi mótaröð hefur orðið til að efla mjög keppnis- og félagsanda hestamanna í Borgarfirði og Vesturlandi, því þátttakendur komu víða að og áhorfendur voru fjölmargir á öllum mótunum. Höllin góða, Faxaborg hefur gert þetta mögulegt og mun hún án efa spila stórt hlutverk í vestlenskri hestamennsku á næstu árum.

Á síðasta mótinu réðust úrslit í liða- og einstaklingskeppni og mátti glöggt finna spennu í höllinni þegar leið á forkeppni og ekki síður í úrslitum. Létu þar áhorfendur mjög til sín taka við að hvetja liðsfélaga áfram.

Til að kóróna verðlaunaflóðið „ruddi“ Gunnar Halldórsson bóndi í Þverholtum sig og keypti laglegan farandbikar handa vinsælasta knapanum. Það voru áhorfendur sem völdu knapann og í þetta sinn kom hann í hlut Gyðu Helgadóttur á Mið-Fossum.

Liðakeppnin á stóran þátt í því hversu mikill áhugi var fyrir þessari mótaröð og voru margir sótraftar á flot dregnir til að styrkja einstök lið og tryggja dýrmæt stig. Liðakeppnina og stigaútreikninginn má útfæra á ýmsan hátt og ekki víst að hann verði eins á komandi mótaröð en það verður nánar auglýst síðar. Andinn er þannig að nú stefna menn fram, harðákveðnir í að gera þetta enn gæsilegra og enn skemmtilegra í ár.
Vonumst til að sjá sem flesta á komandi mótaröð!!
Mótanefnd Faxa & Skugga.