miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kári Steinsson hampar Landsmótsgulli í annað sinn

1. júlí 2012 kl. 12:45

Kári Steinsson varð efstur í ungmennaflokki á LM2012 á Tóni frá Melkoti. Mynd/KollaGr.

Efstur í ungmennaflokki á eigin hesti, Tóni frá Melkoti. Var knapi og eigandi efstu 5 vetra hryssunnar á LM2011

Kári „klári“ Steinsson er gæfumaður. Hann átti frábæra stund á LM2011 í fyrra þegar hryssan hans María frá Feti varð efst í 5 vetra flokki hryssna. Hann reið hryssunni sjálfur og gerði það með stæl.

Í úrslitum í ungmennaflokki á LM2012 í Reykjavík voru úrslitin tvísýnni. Teitur Árnason var efstur inn í úrslitin á Hróarskeldu frá Hafsteinsstöðum, kolsvartri glæsihryssu; góður knapi á góðum hesti. Fleiri sóttu fast að á þekktum og reyndum gæðingum: Ragnheiður Hrund Ársælsdóttir á Glímu frá Bakkakoti, Ásmundur Ernir Snorrason á Rey frá Melabergi og Arnar Bjarki Sigurðarson á Kaspari frá Kommu.

Svo fór að Kári vann með góðri og jafnri reiðmennsku í öllum atriðum. Sótti fram, en innan skynsamlegra marka og sýningin hafði góða áferð. Arnar Bjarki keyrði full mikið á Kaspar á brokkinu, sem og fleiri. Allir voru í kapp, ekki að ríða fallega gangtegund. Það varð því hálfgerður gauragangur úr öllu saman og ekki til fegurðarauka. Eitthvað sem stjórnendur ættu að íhuga.


Ungmennaflokkur - úrslit
               
1 Kári Steinsson / Tónn frá Melkoti 8,78         
2 Ásmundur Ernir Snorrason / Reyr frá Melabergi 8,74         
3 Teitur Árnason / Hróarskelda frá Hafsteinsstöðum 8,70         
4 Arnar Bjarki Sigurðarson / Kaspar frá Kommu 8,66         
5-6 Ragnheiður Hrund Ársælsdóttir / Glíma frá Bakkakoti 8,65         
5-6 Ragnar Tómasson / Sleipnir frá Árnanesi 8,65         
7 Júlía Lindmark / Lómur frá Langholti 8,63         
8 Ellen María Gunnarsdóttir / Lyfting frá Djúpadal 8,43         
9 Anna Kristín Friðriksdóttir / Glaður frá Grund 8,42