fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kappi til Danmerkur

20. apríl 2015 kl. 14:21

Kappi frá Kommu

Hæst dæmdi útflutti hestur það sem af er árinu 2015.

Stóðhesturinn Kappi frá Kommu hefur verið seldur og fór utan í síðustu viku, samkvæmt WorldFeng upprunaættbók íslenska hestsins.

Kappi er klárhestur undan heiðursverðlaunastóðhestinum Þristi frá Feti og Kjarnorku frá Kommu, en sammæðra Kappa eru m.a. stóðhestarnir Kaspar og Kapall.

Kappi skaust upp á stjörnuhimininn árið 2008 þegar hann kom fyrst fram í kynbótadómi. Hann hlaut þá 8,42 í aðaleinkunn og sló þá heimsmet í flokki 4 vetra stóðhesta. Knapi hans og þjálfari var Mette Mannseth.

Hæsta dóm sinn hlaut Kappi hins vegar árið 2010, hann hlaut þá 8,51 bæði fyrir sköpulag og kosti. Hann hlaut m.a. einkunnina 9,5 fyrir tölt, stökk fegurð í reið og samræmi, og einkunnina 9 fyrir háls/herðar/bóga, bak og land, brokk, vilja og geðslag og hægt stökk. Hér má sjá myndband af sýningu hans 2010.

Hlutafélag var stofnað utan um eignarhald Kappa árið 2008, en eigendur hans voru m.a. ræktandi hans Vilberg Jónasson, hjónin Vignir Sigurólason og Berglind Sigurðardóttir á Húsavík og Lilja Pálmadóttir hrossaræktandi á Hofi á Höfðaströnd.

Kappi á 254 skráð afkvæmi og hafa fimm þeirra komi fram í kynbótadómi. Póstur frá Litla-Dal er þar efstur á lista með 8,23 í aðaleinkunn, Maríus frá Húsavík er þar næstur með 8,18 en hann var seldur til Noregs síðla árs 2014.

Kappi kom nokkrum sinnum fram í keppni, m.a. í B-flokki á Landsmóti 2012 og nú síðast í Húnvetnsku liðakeppninni í fyrra undir stjórn Ísólfs Líndal Þórissonar og sigruðu þeir fjórgangskeppni.

Kappi flaug til Danmerkur þann 15. apríl sl.og er hæst dæmdi hesturinn sem fluttur hefur verið frá Íslandi það sem af er árinu 2015.