laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jónas í hestablaðinu

Jens Einarsson
25. ágúst 2010 kl. 09:40

Áttunda tölublað kemur út á morgun

Jónas Kristjánsson, ritstjóri, er í viðtali í blaðinu Hestar og hestamenn, sem kemur út á morgun, fimmtudag. Þar segir Jónas frá Reiðleiðakorti sínu, þar sem hann hefur varðað átta hundruð leiðir með GPS punktum. Bæði leiðir sem hann hefur farið sjálfur, og einnig mörg hundruð leiðir sem hann hefur merkt inn eftir öðrum upplýsingum, fyrst og fremst herforingjaráðskortunum frá því um 1900.

Í blaðinu er hrossaræktin á Hemlu II í Úttekt, en frábærir gæðingar hafa komið frá þeim Vigni Siggeirssyni og Lovísu Herborgu Ragnarsdóttur undanfarin ár. Konur eru einnig í úttekt og rifjuð eru upp tólf ára ummæli Katrínar Sigurðardóttur á Skeiðvöllum um að „konur séu betri reiðmenn.“

Tíu ára Íslandsmeistari í 100 metra skeiði er kynntur til sögunnar, en hann stal senunni á Íslandsmóti yngri flokka á Hvammstanga á dögunum. Sigursteinn Sumarliðason hefur farið mikinn í sumar, vann meðal annars tvöfalt á Gæðingamóti Sleipnis. Fjallað er um gæðingana sem hann hefur tamið og þjálfað.

Þá er klárhestakóngurinn Olgeir Ólafsson sjómaður á Hornafirði til umfjöllunar. Nýjasta stjarnan úr hans ranni er stóðhesturinn Klerkur frá Bjarnanesi. Sögusetur íslenska hestsins á Hólum fékk nýtt húsnæði um daginn. Spjallað er við Örnu Björgu Bjarnadóttur, sem hefur veitt safninu forstöðu síðastliðin fjögur ár.

Hestapestinn fær smá skammt eins og venjulega, og síðan er smá upprifjun um stóðhestinn Sóta frá Bæ II, sem nú gengur í endurnýjun lífdaga í gegnum dóttur sína Gullbrá frá Kvíarhóli, sem er aðal stólpinn í ræktuninni á Hemlu II.

Hægt er að kaupa áskrift í síma 511-6622 eða á netinu á netinu HÉR.