þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jón Elfar á Hrafnagili kaupir Hrym

Jens Einarsson
25. mars 2010 kl. 10:39

Minnir um margt á Hrímni

Jón Elfar Hjörleifsson á Hrafnagili er orðinn meirihluta eigandi í stóðhestinum Hrymi frá Hofi. Hrossaræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga, og Hrossaræktarsamband Dalamanna hafa samþykkt sölu á sínum hlutum. Sigfús Örn Eyjólfsson frá Eiríksstöðum á 33% í hestinum. Þeir Jón Elfar og Sigfús Örn stefna að því að eiga hestinn til helminga.

Hrymur vakti verulega athygli á LM2006 sem glæsilegur og öflugur klárhestur. Fékk 9,0 fyrir framhluta, tölt, brokk og fegurð. Notkun á hestinum hefur ekki verið eins mikil og vænta mátti. En nú eru að koma fram undan honum glæsihross, hágeng og framfalleg. Má þar nefna Dögg frá Steinnesi, sem skreytti svo rækilega ræktunarhóp Steinnesinga á FM2009. 265 afkvæmi undan Hrym eru skráð í WorldFeng. 23 eru með fullnaðardóm, þar af sjö með fyrstu verðlaun. Í kynbótamati er hann með 123 stig fyrir framhluta, 117 fyrir tölt og 120 fyrir fegurð.

Jón Elfar segir að áhugi sinn á Hrym sé ekki síst vegna þess að hann minni um margt á gæðinginn Hrímni frá Hrafnagili. Þeir séu þó ekki skyldir að neinu marki. En Hrymur á hins vegar ekki langt að sækja myndarskap og fas. Fyrir það fyrsta er hann undan Skorra frá Blönduósi, Orrasyni frá Þúfu. En í ættartréinu er einnig að finna gamlar stjörnur á borð við Feng frá Bringu, Feyki frá Hafsteinsstöðum og Dömu frá Hólum. Sjá má myndband af Hrym HÉR