miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jólablað Hestablaðsins í prentun

11. desember 2012 kl. 15:49

Fláki frá Blesastöðum 1a er hæst dæmdi alhliða gæðingur ársins með 9,30 í aðaleinkunn, knapi Þórður Þorgeirsson. Hann prýðir forsíðuna á jólablaði Hestablaðsins.

Blaðið er eitt hundrað blaðsíður og kemur að þessu sinni út í tímaritsformi. Blaðið er stútfullt af áhugaverðu efni og góðum ljósmyndum.

Jólablað Hestablaðsins kemur út í byrjun næstu viku. Í blaðinu, sem er eitt hundrað blaðsíður í tímaritsformi, er meðal annars ítarleg grein um hross Sigurðar Jónssonar frá Brún, skrifuð af Óskari Bergssyni frá Strönd á Rangárvöllum.

Sigurður var farandkennari og ferðaðist víða um landið, oftast ríðandi. Stóðhestar úr ræktun hans dreifðu sæði sínu víða og þegar grannt er skoðað eru áhrif þeirra mun meiri en almennt er talið. Hugsanlega vegna þess að mörg hrossa Sigurðar eru einhverra hluta vegna ekki skráð í ættbók og ættartengingar þeirra því ekki tæmandi WorldFeng.

Einnig er í blaðinu viðtal við Magnús Trausta Svavarsson og Hólmfríði Björnsdóttur á Blesastöðum 1a, sem hlutu titilinn Ræktunarbú keppnishrossa 2012, sem veittur er af LH. Að auki þá eru fjórir af tíu efstu stóðhestum fyrir tölt í kynbótamati frá Blesastöðum 1a og þar af er aðalstóðhestur búsins Krákur frá Blestastöðum 1a efstur og Trausti sonur hans í öðru sæti. Af tíu efstu hryssum fyrir tölt eru fjórar frá Blesastöðum 1a.

Ræktunarbú ársins 2012 eru í úttekt og það er Óðinn Örn Jóhannesson sem fjallar um þau þrettán bú sem tilnefnd voru:  ræktendur og ábúendur og helstu hross í dómi á árinu og einkunnir þeirra.

Kristinn Hugason, kynbótafræðingur, skrifar ítarlega úttekt á hinu nýfundna skeiðgeni, sem talið er að geti haft veruleg hagnýt áhrif í hrossaræktinni. Kristinn, sem er fyrrum hrossaræktarráðunautur, fjallar um málið frá ýmsum hliðum og hér er um mjög áhugavert efni að ræða fyrir þá sem vilja kafa dýpra í ræktunaraðferðir.

Sigfús K. Jónsson og Ragnhildur Guðnadóttir tómatabændur og hrossaræktendur á Skrúð í Reykholtsdal eru í viðtali. Búið var eitt af þeim þrettán búum sem tilnefnd voru til ræktunarverðlauna BÍ og óhætt að segja að þau hjónin hafa náð eftirtektarverðum árangri í ræktuninni. Það er Birna Tryggvadóttir Thorlacius sem spjallar við þau hjónin.

Þá er viðtal við hinn unga og efnilega knapa Flosa Ólafsson sem varð efstur í tölti ungmenna á NM2012 á hinum norskræktaða stóðhesti Kveik frá Lian. Flosi fer yfir ferilinn, sem er ótrúlega langur hjá ekki eldri manni.

Að lokum er svo mjög áhugaverð grein eftir Birnu Tryggvadóttur Thorlacius um markaðsmál tengd íslenska hestinum. Greinin er byggð á lokaverkefni hennar við LbhÍ á Hvanneyri.

Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511-6622.