sunnudagur, 20. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jóla og nýárskveðja til hestamanna.

3. janúar 2015 kl. 13:15

Kveðja frá Sveini Steinarssyni formanni Félags hrossabænda.

"Kæru hestamenn og vinir þá er jólahátíðin gengin í garð, árstími sem við miðum gjarnan við þegar við tökum hross á hús að nýju eftir að hafa gefið þeim sitt árlega frí.

Árið hjá okkur hestamönnum hefur verið umfangsmikið eins og landsmótsárin eru gjarnan. Það er mikil tilhlökkun sem fylgir landsmótunum, þau eru stórviðburðir sem skilja eftir sig góðar minningar um frábæra gæðinga, vinafundi og jafnvel geta landsmótin orðið eftirminnileg fyrir veðurlag eins og við fengum að kynnast í s.l. sumar. Þessu þurfum við ásamt fleiru að gera ráð fyrir þegar við förum á landsmót.  Það er ekkert fyrirfram gefið þegar viðburðir af þessari stærðargráðu sem eru skipulagðir langt fram í tímann og nánast engu hægt að breyta þegar á hólminn er komið. Við þurfum að hafa umburðarlyndi gagnvart mörgum þáttum varðandi landsmótshaldið og ekki síst gagnvart þeim sem taka að sér að undirbúa og skipuleggja slíka viðburði og reyna án efa gera sitt besta á hverjum tíma. Við þurfum  að hafa hugfast að þeir sem það gera eru að fórna tíma sínum í þágu okkar hinna.

Nú liggur fyrir undirrituð viljayfirlýsing gagnvart því hvar næstu tvö landsmót verða þ.e. 2016 á Hólum í Hjaltadal í Skagafirði og 2018 á svæði Fáksmanna í Víðidal. Eins og við þekkjum þá er fyrst gerð viljayfirlýsing  gagnvart staðarvalinu og síðan eru gerðir ítarlegir samningar þar sem allt það helsta kemur fram um aðstöðu fyrir menn og hesta sem og þá þjónustu sem staðarhaldari leggur til meðan á mótinu stefndur. Eins og greint hefur verið frá þá á að ganga frá samningum við Skagfirðinga um landsmótið 2016 og á þeirri vinnu að ljúka í febrúar. Ástæða til að óska bæði Skagfirðingum og Fáksmönnum til hamingju með að þeirra svæði hafi verið valin þó svo að samningagerðin sé eftir.

Það felast  ákveðin tækifæri í því að fá landsmót á sitt svæði og á það ekki síst við gagnvart þeirri miklu uppbyggingu á aðstöðu sem mótin krefjast.

Ætla má að bætt aðstaða á Hólum nýtist við skólastarfið og auki hróður skólans sem menntastofnunnar hrossaræktinni og hestamennskunni til hagsbóta sem og að nýtt keppnissvæði á Hólum eykur tækifæri við kennslu og hvers kyns móta og námskeiðarhalds. Þetta hljóta aðilar að hafa í huga þegar ráðist er í kostnaðarsama uppbyggingu eins og er fyrirliggjandi í Hjaltadal.  Það gæti því falist mikið tækifæri í því fyrir Skagfirðinga að sameinast um að halda landsmótið 2016 og því mikilvægt að vel til takist ef samningar ganga eftir og mótið verði haldið á Hólum.

Ég hélt sjálfur að sá tími væri kominn að við sameinuðumst um einn landsmótsstað en svo virðist ekki vera og því þurfum við áfram að velja okkur landsmótstaði með sama eða svipuðu formi og gert hefur verið undanfarin ár. Það er samt nokkuð ljóst að við staðarvalið verður gerð æ meiri krafa á aðbúnaður fyrir menn og hross sé góður og að helst séu aðstæður á mótsstað til að hýsa stæðstan hluta þeirra hrossa sem þátt taka í mótinu.

Það voru ófagrar fréttirnar sem bárust af Álftanesinu í aðdraganda jólanna af hrossunum 13 sem fóru niður um ís og drápust. Það er hræðilegt  þegar slíkir atburðir eiga sér stað. Eigendum hrossanna sendi ég samúðarkveðjur mínar.

Að fenginni reynslu er áríðandi að huga vel að hrossum þessa dagana þegar landsmenn hefja árlegt sprengjuregn sem margfaldar líkur á að hross fælist með skelfilegum afleiðingum.

Landsamband hestamanna og Félag hrossabænda ætla að standa sameiginlega að Uppskeruhátíð þann 10.janúar n.k og vonum við forsvarsmenn félaganna að sem flestir sjái sér fært að mæta, rifja upp viðburði þessa árs og skemmta sér og öðrum.

Hestamönnum öllum þakka ég fyrir árið sem er að líða og óska heilla á nýju ári."

Með jóla og nýárskveðju
Sveinn Steinarsson formaður Félags hrossabænda.