fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jóhann Skúlason knapi ársins 2011

7. nóvember 2011 kl. 09:19

Knapar ársins á Uppskeruhátíð hestamanna 2011, Jóhann fremstur, Hinrik, Sigursteinn, Þórður og Arna Ýr.

Arna Ýr efnilegasti knapinn

Jóhann Skúlason er knapi ársins 2011. Í valinu vegur án ef þyngst frammistaða hans á HM2011 þar sem hann varð heimsmeistari í tölti í fimmta sinn á Hnokka frá Fellskoti. Eitthvað sem seint verður leikið eftir. Enginn annar knapi kemst með tærnar þar sem Jóhann hefur hælana í keppni í tölti.

Fáum kom líka á óvart að Þórður Þorgeirsson skyldi valinn kynbótaknapi ársins, en hann ber höfuð og herðar yfir aðra knapa á þeim vettvangi í kynbótasýningum ársins, sama hvar á það er litið.

Íþróttaknapi ársins 2011 er Sigursteinn Sumarliðason, en hann varð bæði Landsmóts - og Íslandsmeistari í tölti á Ölfu frá Blesastöðum 1a auk þess að ná góðum árangri  í hestaíþróttum og gæðingakeppni almennt.

Skeiðknapi ársins er Bergþór Eggertsson, en hann er, má segja, orðinn áskrifandi að heimsmeistaratitli í 250 metra skeiði á Lótus frá Aldenghoor og hefur verið í fremstu röð í skeiðgreinum um árabil.

Gæðingaknapi árseins er Hinrik Bragason, en hann náði þeim eftirsóknarverða árangri að sitja efsta gæðing á Landsmóti, sem á LM2011 var stóðhesturinn og gæðingurinn Ómur frá Kvistum. Hinrik náði einnig frábærum árangri í öðrum greinum hestaíþrótta og gæðingakeppni.

Efnilegasti knapi ársins er Arna Ýr Guðnadóttir, en hún náði frábærum árangri á keppnistímabilinu, varð þrefaldur Íslandsmeistari í fjórgangsgreinum á Þrótti frá Fróni og Reykjavíkurmeistari í tölti.