mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jóhann lætur ekki tölthornið af hendi

7. ágúst 2011 kl. 15:07

Jóhann Skúlason á Hnokka frá Fellskoti. Mynd/Henk Peterse

Heimsmeistari í tölti í fimmta sinn

Jóhann Skúlason er maður mótsins á HM2011 í Austurríki. Hann varði heimsmeistaratitil sinn í tölti og er þetta í fimmta sinn sem hann vinnur þennan titil. Fyrst á Feng frá Íbishóli í Þýskalandi 1999, síðan á Snarpi frá Kjartansstöðum, tvisvar á Hvini frá Holtsmúla og nú á Hnokka frá Fellskoti með 8,78 í einkunn. Þessi afrek verða seint leikin eftir, öll samanlögð.

Það er hverjum hestamanni löngu ljós að Jóhann hefur algjöra yfirburði í þjálfun og reiðmennsku á íslenskum tölthestum. Ekki er hægt að skrifa árangur hans á hestana, þótt vissulega góðir séu. Þeir hafa alla vega ekki borið aðra knapa á bakinu upp að verðlaunapallinum.

Þess má líka geta að Jóhann tamdi og þjálfaði stóðhestinn Victor frá Diisa, sem var nú í toppbaráttunni í fjórgangi hjá Isabelle Felsum, og einnig um tíma Kiljan frá Blesastöðum og keppti á honum NM2008, sem var nú í fimmta sæti í tölti hjá Camillu Mood Havig.

Sannarlega góður endir á HM2011 í ljósi þess að Íslendingar þurftu að sjá á eftir gullinu í öðrum hringvallagreinum til keppinauta sinna.

Öll úrslit HM2011 má sjá HÉR.