miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Járningarmannafélagið heldur Íslandsmót í járningum -

23. júlí 2010 kl. 15:47

Járningarmannafélagið heldur Íslandsmót í járningum -

Íslandsmót í járningum var haldið í fyrsta sinn í tengslum við Töðugjöld á Hellu í fyrra. Nú stendur til að halda það öðru sinni á Stórmóti Geysis á Gaddstaðaflötum laugardaginn 31. júlí klukkan 14.00.


Við höfðum samband við Sigurð Sæmundsson sem er dómari keppninnar til að fræðast örlítið um hvernig mót í járningum fer fram, hvað er dæmt og fleira.


Að sögn Sigurður fer keppnin þannig fram að hver keppandi á að járna einn hest og fær til þess klukkutíma. Dómari fer á milli og fyrst er dæmd tálgun, hvernig hófurinn er planaður og vinna við hófinn. Keppandi má einungis nota handverkfæri ekki slípirokk eða nein verkfæri sem ganga fyrri rafmagni, því næsta dómsatriði er hvernig skeifa er formuð fyrri hófinn, hversu vel hún situr og hvort saumtakið sé í réttri hæð, þá eru hnykkingar dæmdar, hversu vel er hnykkt, hvernig hnykkingar falla að hóf og lokafrágangur á hófi ásamt samræmi milli fram og afturhófa.


Keppnin fer fram í Reiðhöllinni á Gaddstaðaflötum og verður leitast við að setja keppnina þannig upp að auðvelt verði fyrir áhorfendur að ganga á milli og fylgjast með járningamönnunum við vinnu sína.
Keppendur er bæði menntaðir járningamenn og þeir sem eru sjálfmenntaðir en stunda járningar. Að sögn Sigurðar er það keppikefli mótshaldaranna að fá í keppnina flesta þá sem eru að járna hesta og hafa áhuga á að taka þátt. Að þessu sinni er keppt í einum flokki kaldjárninga en markmiðið er síðar meir að keppa bæði í heitjárningum og kaldjárningum.


Keppnir sem þessar eru algegnar víðast hvar erlendis þar sem það þykir mikill heiður fyrir járningarmann að vera krýndur landsmeistari.  Keppnir sem þessar njóta mikilla vinsælda meðal áhorfenda því að fylgjast með svona keppni er bæði skemmtilegt og fræðandi fyrir hestaáhugafólk. Meistarinn verður svo krýndur strax að keppni lokinni í Rangárhöllinni.


Járningarmannafélag Íslands er um það bil fjögurra ára gamalt félag. Helsti tilgangurinn með stofnun þess var meðal annars að auka fræðslu og menntun járningarmanna á Íslandi ásamt því að skapa tengsl við járningarmenn erlendis og viðhalda þeim tengslum sem íslenskir járningamenn hafa við þá skóla sem þeir lærðu við.


Járningar eru faggrein sem tekur þrjú til fimm ár að læra, í sumum löndum eins og til dæmis Bretlandi er hreinlega bannað að járna hest ef viðkomandi hefur ekki til þess tilskilinn réttindi. Víða annar staðar í Evrópu er þróunin að verða á þann veg að einungis fagmenn hafi leyfi til þess að taka að sér járningar gegn greiðslu og víða neita tryggingarfélög að tryggja járningamenn nema þeir hafi til þess tilskilinn réttindi.  


Járningarmannafélagið leggur sig því fram við að aðstoða ungt fólk sem hefur áhuga á að komast í nám í járningum með því að nota þau sambönd sem félagsmenn búa yfir. Námið þarf að taka erlendis en með tilkomu félagsins er nú möguleiki fyrir nemendur að tak hluta af verknámi hjá meistara hér á Íslandi sem getur haft mikið að segja vegna þess að námið er langt og töluverður hluti af því felst í verknámi hjá meistara.


Fræðsla er Járningarmannafélaginu hugleikin bæði fræðsla til almennings hér, til járningarmanna á Íslandi og ekki síst að fá þekkingu erlendis frá og að koma þekkingu héðan til þeirra járningarmanna erlendis sem járna íslenska hesta.


Félagsmenn í Járningarmannafélagi Íslands eru í dag um það bil 60.


Eiðfaxi óskar Járningarmannafélaginu til hamingju með Íslandsmeistaramótið og hvetur fólk til þess að mæta og fylgjast með skemmtilegri og fræðandi keppni. -hg