mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Járningamenn leita hófanna erlendis -

10. júní 2010 kl. 12:15

Járningamenn leita hófanna erlendis -

Það er ládeyða í atvinnumálum járningamanna eins og tamningamanna og fleiri aðila í geiranum tengdum hestamennskunni. Margir járningamenn hafa hlaupið í önnur störf á haustin, sem trúlega á eftir að reynast erfitt þetta árið.

Óskar Jóhannsson járningameistari er einn þeirra sem er á leið í víking. Hann er í Norrænu þessa stundina á leið til Danmerkur.

En af hverju ætlar hann til Danmerkur?

„Ég lærði járningar þar á árunum 2002-2006 hjá Per Munch járningameistara. Ég bjó í Skals á Jótlandi og þekki því margt fólk í Íslandshestaheiminum í Danmörku. Ég talaði við nokkra kunningja mína úti sem hvöttu mig til að koma, það yrði örugglega nóg fyrir mig að gera.“

Verða það íslenskir hestar sem þú munt járna?
„Já, að stærstum hluta. En í náminu og vinnunni á sínum tíma, járnuðum við hross af mörgum hestakynjum, svo það kemur alveg til greina ef tími vinnst til.“

Var auðvelt að finna samastað?
„Já, það var ekki erfitt. Vinur minn Bo Juncher og fjölskylda hans á Amhøj bauð mér að búa hjá þeim. Hann er svínabóndi en er líka með íslensk hross.“

Hvers vegna ferðu með Norrænu?
„Það er nú vegna þess að ég ákvað að fara á litlum sendibíl með járningagræjurnar með mér. Það hefði verið svolítið flókið að fara með þetta allt í flugvél.“

Og sótthreinsaðirðu verkfærin þín og annað búnað áður?
„Já það gerði ég. En það er nú saga að segja frá því. Ég leitaði til Matvælastofnunar með það mál til að fá leiðbeiningar um það hvernig ég ætti að bera mig að. Það var mjög erfitt að fá nokkuð frá þeim með það. Ég sótthreinsaði bílinn og verkfærin mjög vel en þau gátu ekki gefið út vottorð að þessu væri lokið eða hvað annað ég gæti gert. Ég hafði samband við Helga Sigurðsson dýralækni, honum fannst þetta skrítin vinnubrögð og sagði mér að koma við á Dýraspítalanum. Þar var allt sótthreinsað aftur og ég fékk síðan vottorð frá MAST eftir að Helgi talað við hlutaðeigandi aðila þar. Það var til dæmis sett út á járningakassann minn, sem var úr krossvið og erfitt að sótthreinsa. Ég skipti honum því út fyrir nýjan. Mér finnst með ólíkindum að Matvælastofnun sé ekki með föst vinnubrögð í tilvikum sem þessum, þegar fólk er að leggja sig fram við að fara varlega og að reglum um sóttvarnir.“


Eiðfaxi óskar Óskari velgengni í starfi sínu í Danmörku.