sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Járnin enn í deiglunni

Jens Einarsson
7. september 2009 kl. 09:18

Sigurbjörn í ham á Meistaramóti Andvara

Hinn fimmtíu og sjö ára gamli hestamaður og keppnismaður Sigurbjörn Bárðarson var knapi mótsins á Meistaramóti Andvara sem fram fór um helgina. Hann vann allar fjórar greinarnar sem hann tók þátt í: A flokk gæðinga, tölt, 150 og 250 metra skeið.

Sigurbjörn hefur heldur dregið úr þátttöku í keppni undanfarin misseri. Miðað við það sem áður var, en hann hefur í áratugi verið einn ötulasti keppnismaður landsins í hestaíþróttum. Töldu menn að hann væri nú loksins varinn að linast. Og tími til kominn fannst mörgum. Ekki síst í ljósi þess að Sigurbjörn gengur ekki heill til skógar eftir að hann hryggbrotnaði í fjórhjólaslysi fyrir nokkrum árum. Nei, aldeilis ekki! Járnin eru enn í deiglunni. Og flugbíta þegar þeim er beitt.

Það er mál manna að Stakkur frá Halldórsstöðum, hafi aldrei verið betri en einmitt nú. Lítur ekki illa út hjá þeim félögum þegar horft er til Landsmóts á næsta ári. Þeir urðu efstir í A flokki með 8,88 og örugga forystu. Þetta er sennilega í fimmta sinn sem þeir toppa alhliða gæðingana á þessu móti. Í töltinu var Sigurbjörn einnig mörgum skrefum á undan næsta keppanda í úrslitum, á Jarli frá Mið-Fossum. Fékk 8,06 í einkunn en næsti keppandi var með 7,67.

Í 150 metra skeiði náði Sigurbjörn besta tímanum á Óðni frá Búðardal, 14,15 sekúndur, og í 250 metra skeiði á Flosa frá Keldudal, 22,86 sekúndur. Flosi var eini hesturinn sem hljóp umdir 23,0 sekúndum í þeirri vegalengd. Þess má geta að Óðin og Sigurbjörn eiga Íslandsmetið í 250 metra skeiði, 20,6 sekúndur, sett á Selfossi 2003.

Sjá má öll úrslit mótsins á www.hestafrettir.is og www.andvari.is