miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jakob Svavar sýnir meistaravinnubrögð-

14. febrúar 2011 kl. 15:56

Jakob Svavar sýnir meistaravinnubrögð-

 „Ég reikna með að sýna þau vinnubrögð og þjálfunaraðferðir sem ég nota,“ segir nýkrýndur sigurvegari í gæðingafimi Meistaradeildarinnar Jakob Svavar Sigurðsson. Hann mun vera með sýnikennslu á Afmælishátíð Félags tamningamanna næstkomandi laugardag í reiðhöllinni í Víðidal.

Sem nýkrýndur gæðingafimsmeistari var ekki úr vegi að spyrja hann hvað sé það mikilvægasta þegar hestur er þjálfaður fyrir gæðingafimi. „Hesturinn þarf fyrst og fremst að vera mjúkur og sáttur. Því þarf að gefa sér tíma í að láta hestinn skilja allar ábendingar,“ segir Jakob Svavar. Honum til halds og traust í sýnikennslunni verður fjölhæfi gæðingurinn Auður frá Lundum.

Af Meistaradeildinni segir Jakob hana mikla lyftistöng fyrir íslenska reiðmennsku. „Meistaradeildin er gríðalega góð kynning og jákvæð umfjöllun styður við góða ímynd hestamennskunnar. Hún virðist auka áhuga almennings á hestinum og reiðmennsku því ég hef heyrt af fólki sem ekki er í hestamennsku sem fylgist grannt með Meistaradeild.“

Jakob Svavar mun mæta á ný með Árborgu frá Miðey í töltkeppni Meistaradeildarinnar sem fram fer 24. febrúar.