mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jakob kemur á stórstjörnu

Óðinn Örn Jóhannsson
28. mars 2018 kl. 09:00

Júlía og Jakob Svavar F1 2018.

Miðasalan er hafin.

Nú eru línur heldur betur að skýrast varðandi ráslista ”Allra sterkustu” á laugardaginn. Jakob Svavar mun koma með gæðingshryssuna Júlíu frá Hamarsey. Júlía er fædd 2009, undan Auði frá Lundum II og Hviðu frá Ingólfshvoli og er í eigu Hrossaræktarbúsins Hamarseyjar. Júlía er með frábæran hæfileikadóm sem klárhryssa, eða 9,5 fyrir tölt og hægt tölt og 9,0 fyrir brokk, vilja og geðslag, fegurð í reið og hægt stökk. Nýjustu sigrar Jakobs og Júlíu á keppnisbrautinni eru úr Meistaradeild Cintamani þar sem þau unnu bæði fjórgang og slaktaumatölt. Á síðasta ári sigruðu þau tölt á Fjórðungsmóti Vesturlands, fjórgang og T2 á WR Reykjavíkurmeistaramóti Fáks, og sömu greinar á WR íþróttamóti Spretts og urðu að auki Íslandsmeistarar í T2. 

Skapti Steinbjörnsson kemur norðan úr Skagafirði með gæðinginn Odda frá Hafsteinsstöðum en sá er einnig fæddur 2009 og er undan Sæ frá Bakkakoti og Linsu frá Hafsteinssöðum og er í eigu Hafsteinsstaðahjónanna og sonar þeirra Steinbjörns Arents. Oddi er með glæsilegan kynbótadóm eða 9,5 fyrir tölt, brokk og vilja og geðslag og 9,0 fyrir stökk, fegurð í reið og hægt tölt. Oddi tók þátt í LM2016 og var 2. í B-úrslitum B-flokksins með 8,79 í einkunn. Hann varð síðan í 2. sæti í B-flokki á sterku Fjórðungsmóti Vesturlands í fyrrasumar með 8,90 í einkunn.  

Helgu Unu Björnsdóttur þekkja hestamenn vel en hún hefur verið áberandi á keppnis- og kynbótavellinum síðustu ár. Hún teflir fram annarri hryssu frá Hamarsey en það er Sóllilja, undan Hákoni frá Ragnheiðarstöðum og Selmu frá Sauðárkróki. Eigendur hryssunnar eru Norðmaðurinn Per S. Thrane og Hrossaræktarbúið Hamarsey. Eins og fyrrnefnd hross bæði, er Sóllilja með afbragðs dóm, til dæmis 9,5 fyirr tölt, 9,0 fyrir brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Hryssunni hefur bæði verið stillt upp í gæðinga- og íþróttakeppni og er greinilega vaxandi á báðum stöðum enda einungis rétt að verða 8 vetra. 

Happdrættið verður á sínum stað og sala miða í fullum gangi. Verðmæti vinninga er á aðra milljón en sem dæmi um aðalvinninga má nefna folatolla, ferðavinning, hnakk, járningasett og fleira. 

Miðasalan er hafin í Líflandi Lynghálsi, hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi og í Top Reiter Ögurhvarfi. Miðaverð er það sama og síðustu ár, 3.500 kr aðgöngumiðinn og 1.000 krónur happdrættismiðinn, en happdrættið verður sérlega glæsilegt að þessu sinni. 

Húsið opnar kl. 17 og keppni hefst kl. 19.