sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenski hesturinn í kastljósi

15. maí 2019 kl. 13:00

Íslenski hesturinn

Íslenski hesturinn í umfjöllun Equus Worldwide á Horse & Country TV, 45 milljón áhorfendur um allan heim!


Í heimildarþáttaröðinni Equus Worldwide er fjallað um fimm hrossakyn á mismunandi stöðum í heiminum; uppruna þeirra, þróun í gegnum aldirnar og hlutverk fyrr og nú. Fyrir utan íslenska hestinn, eru hrossakyn á Indlandi, í Afríku og Norður- og Suður-Ameríku tekin fyrir.

Þátturinn Equus Worldwide Iceland, sem er um 20 mínútur að lengd, verður sýndur á alþjóðlegu sjónvarpsstöðinni Horse & Country TV í dag og nær hann til ríflega 45 milljóna áhorfenda um allan heim.

 

Tökulið þáttarins kom til Íslands í mars síðastliðnum. Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, skipulagði dagskrá og útvegaði viðmælendur. Í þættinum var Hólaskóli heimsóttur og þar sögðu deildarstjóri Hestafræðideildar, Sveinn Ragnarsson, og yfirreiðkennari Mette Mannseth frá eiginleikum íslenska hestsins og náminu. Einnig var fjallað um hestaferðir, sem boðið er upp á frá Hvammi II í Vatnsdal, og hrossaræktarbúið Hafsteinsstaði í Skagafirði. Síðan fylgdist tökuliðið með keppni í ístölti í Mývatn Open – Horses on Ice. Rauði þráðurinn í þættinum eru hin nánu tengsl Íslendinga við hestana sína og landið.


Leikstjóri og framleiðandi Equus Worldwide Iceland, Philippa Armsby-Ward, segir: „Ég hef ferðast til margra landa vinnu minnar vegna, en þetta var í fyrsta skipti sem ég kom til Íslands. Ég varð hissa á hlýju og vingjarnleika allra sem við hittum. Upplifunin var yndisleg: Fólkið, menningin og hestarnir. Ég mun örugglega koma aftur við fyrsta tækifæri. Mig langar að ríða frá norðri til suðurs að sumri til – það virkar eins og töfrandi hestaferð.“


Jelena segir að þátturinn muni hafa mikil áhrif á markaðssetningu íslenska hestsins. „Eitt af markmiðum okkar með Horses of Iceland er að vekja athygli á eiginleikum íslenska hestsins og á samfélaginu okkar meðal eigenda og reiðmanna annarra hrossakynja, auk almennings. Við lítum á þennan heimildarþátt sem kjörið tækifæri til að koma skilaboðum okkar á framfæri og við erum mjög hrifin af útkomunni.“


HÉR er hægt að horfa á stiklu úr þættinum. 

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni á vefsíðunni www.horseandcountry.tv.

 


Um Horse & Country TV 

Horse & Country TV er alþjóðleg sjónvarpsstöð um hestamennsku og sveitalíf. Hægt er að horfa á sjónvarpsstöðina í Bretlandi og á Írlandi með Sky channel 184. Einnig er hægt að nálgast útsendingar á Amazon Prime Video og Roku, í gegnum streymi á vefsíðunni www.horseandcountry.tv og með smáforritum fyrir snjallsíma.


Um Horses of Iceland 

Markaðsverkefnið Horses of Iceland var stofnsett árið 2015 til að auka verðmætasköpun í tengslum við íslenska hestinn, styrkja ímynd hans í vitund fólks um allan heim og byggja upp sterkt vörumerki, Horses of Iceland. 

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins og starfar með verkefnastjórn sem skipuð er fulltrúum úr hestasamfélaginu, Félagi hrossabænda (FHB), Landssambandi hestamannafélaga (LH), Félagi tamningamanna (FT) og meðal útflytjenda íslenska hestsin, auk fulltrúum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samtökum ferðaþjónustunnar.