laugardagur, 23. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íþróttafólk Andvara 2009

23. nóvember 2009 kl. 11:00

Íþróttafólk Andvara 2009

Á aðalfundi Andvara sem fram fór þann 18.nóvember s.l. voru viðurkenningar veittar fyrir efnilegustu unglingana í félaginu. Að auki var val á Íþróttamanni Andvara kunngjört en fyrir valinu var hin síungi Erling Ó. Sigurðsson.

Efnilegust
Efnilegasta stúlkan í Andvara þetta árið var valin Guðlaug Jóna Matthíasdóttir og efnilegasti pilturinn er Arnar Lárusson. Þessir knapar hafa verið dugleg við útreiðar og tekið þátt í hinum ýmsu mótum, bæði hjá Andvara og á öðrum opnum mótum, með góðum árangri. Einnig hafa þau tekið þátt í félagsstörfum hjá hestamannafélaginu Andvara og aðstoðað við mót og aðra viðburði hjá félaginu.

Heiðursfélagi Andvara
Halldór Halldórsson var gerður að heiðursfélaga Andvara á fundinum. Halldór er fæddur í Reykjavík árið 1948 og hann kynntist hestum og reiðmennsku sem barn í sveit, en algengt var að börn voru send í sveit á uppvaxtarárum hans. Halldór ólst upp í Bústaðahverfinu í Reykjavík sem þá var jaðarhverfi borgarinnar og í kring um heimili hans voru bæði sveitabæjir, svína og hænsnabú og auðvitað hesthús. Halldór byggði sér sjálfur hesthús hér á Kjóavöllum árið 1984 og gekk það sama ár í Andvara. Halldór hefur verið ötull félagsmaður og ósérhlífinn og tekið að sér mörg verkefni fyrir Andvara, hann hefur átt sæti í stjórn félgsins sem gjaldkeri, mótanefnd, bygginganefnd félagsheimilisins, feðanefnd og reiðveganefnd.  Á vegum Landssambands hestamannafélaga hefur Halldór verið í Landsmótsnefnd fyrir hönd Andvara árið 2000 þegar Landsmótið var haldið í Reykjavík og í varastjórn Lh. Árin 2002 – 2006 Þá hefur Halldór setið í samgöngunefnd Landssambands hestamannafélaga um árabil og formaður hennar frá árinu 2006.

Íþróttamaður Andvara
Erling Ó Sigurðsson, hinn gamalkunni knapi var kjörinn Íþróttamaður Andara. Erling hefur stundað hestamennslu frá blautu barnsbeini og stundað þjálfun hrossa, reiðkennslu og keppni á öllum tegundum hestamóta um æfina. Á árinu keppti Erling á fjölmörgum mótum og hlaut 1. sætið  í 5 þeirra og setti tvö íslandsmet í skeiðgreinum þar sem rafrænn tímatökubúnaður var notaður.
Þá hlaut hann 2. sætið þrisvar sinnum 4 og 5 sætið einu sinni hvort, auk annara afreka.  Erling var einvaldur og liðsstjóri Andvaraliðsins í bikarkeppni hestamannafélaganna á höfuðborgarsvæðinu á sl. ári, sem lið Andvara vann með glæsibrag.

Á myndunum er, auk verðlaunahafanna, Pétur Maack formaður félagsins. Myndirnar eru fengnar að láni á www.andvari.is.