föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenskur stóðhestur á Costa del sol

Jens Einarsson
14. desember 2010 kl. 10:47

Spánn er ekki að opnast

Íslenskur stóðhestur mun prýða hesthús og velli á spænsku hestamiðstöðinni Costa del sol næstu árin. Finnsk Íslandshestakona, sem er í námi á Spáni, hefur fest kaup á stóðhestinum Þræði frá Austurkoti. Þráður mun verða í "pension" á Costa del sol, en þar er rekin glæsileg alhliða hestamiðstöð: Reiðskóli, tamningastöð og "pension". Páll Bragi Hólmarsson, seljandi hestsins, segir það tilviljun að hesturinn fari til spánar. Viðkomandi aðili hafi áður keypt af þeim hross til Finnlands, en muni taka Þráð til Spánar vegna veru sinnar þar.

„Þetta er nú ekki þannig að Spánn sé að opnast,“ segir Páll Bragi og vísar í gömul ummæli íslenskra hestasölumanna þegar nokkur hross voru seld til Ameríku um miðjan níunda áratug síðustu aldar. „Þessi kona er  frístundareiðmaður og ætlar að þjálfa hestinn á þessari hestamiðstöð, Costa del sol, á meðan hún býr á Spáni. Byggja hann upp fyrir keppni síðar meir. Hún vildi fá viljugan alhliða hest með efnilegt skeið. Þráður er upplagður í þetta verkefni og það er spennandi að sjá hvort hann mun vekja áhuga spánverja á íslenska hestinum. Maður veit aldrei hvað getur orðið til að tendra neistann,“ segir Páll Bragi.

Páll Bragi og Hugrún Jóhannsdóttir kona hans hafa unnið ötullega að markaðsmálum í útlöndum. Þau hafa náð umtalsverðum árangri í Finnlandi og komið upp varanlegum viðskiptasamböndum þar. Rússland hefur hins vegar reynst erfiðara viðfangs. „Það er mjög kostnaðarsamt að fara í kynningarferðir til stórra landa eins og Rússlands. Við fengum stuðning frá hinu opinbera í eina ferð og hún tókst vel. Þær glæður eru ekki kulnaðar en það þarf áframhaldandi eftirfylgni héðan að heima til að blása lífi í þær.

Annað mál er að íslenska hesturinn hefur ekki fengið viðurkenningu í Rússlandi sem löglegt hestakyn, en það er grunnforsenda fyrir áframhaldandi markaðssetningu. Í því máli þarf að vinna líka. Í þriðja lagi þá er samkeppni í sölu orðin mikil frá þeim þjóðum sem eru komnar vel á veg í ræktun og þjálfun á íslenska hestinum, svo sem Þýskalandi og Norðurlöndunum. Við Íslendingar verðum því að vera á tánum ef við ætlum að halda sjó og finna nýja markaði; þjálfa hrossin okkar vel og kynna þau markvisst. Kaupendurnir koma ekki af sjálfu sér,“ segir Páll Bragi.