föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenskir hestar á Equitana

2. apríl 2013 kl. 19:45

Íslenskir hestar á Equitana

Íslenskir hestar tóku þátt í sýningum ganghesta á Equitana 2013. Heimildir Eiðfaxa um hið gagnstæða í frétt hér á vefnum eiga því ekki við rök að styðjast.

Jens Einarsson:

Kolbrún Grétarsdóttir, ljósmyndari Eiðfaxa á Equitana, segir að íslensk hross hafi tekið þátt í sýningum ganghestakynja, en hins vegar sé það rétt að mjög erfitt hafi verið að finna upplýsingar á vettvangi um einstök sýningaratriði. Tímasetningar sem finna mátti um dagskrána á Netinu hafi vægast sagt verið skeikular.

„Eina leiðin var að vakta helstu sýningarhallirnar og það var nánast fyrir tilviljun að ég datt inn á sýningu í höll 6, stóru sýningarhöllinni, þar sem íslenskir hestar voru með sérstakt atriði. Það var mjög fínt, hestunum var riðið á tölti, bæði unglingar og eldri knapar. Það var greinilega verið að leggja áherslu á hversu mjúkur reiðhestur hann er, en ekki á fótaburð og tilþrif á skeiði.

Það voru einnig fleiri sýningaatriði með íslenskum hestum í höll 2, sem er mun minni, og síðan var íslenskum hestum riðið nokkrum sinnum inn á íslenska sýningasvæðið, eða "Íslandsþorpið" eins og það var kallað, sem var alveg til sóma. Landsmót hestamanna var með fínan bás og það var mikil umferð þar. Arinbjörn á Brekkulæk var líka með bás og mér skilst að hann hafi verið fastur gestur þarna í fjölda ára. Þannig að það er á hreinu að Ísland og íslenskir hestar voru á Equitana, en það er rétt að þeir voru ekki á "Top Show" og mér skilst að það sé í fyrsta sinn í sautján ár,“ segir Kolbrún Grétarsdóttir.