mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenskir gæðingar á ís í Hollandi

Jens Einarsson
20. desember 2010 kl. 11:09

Keppt á 400 metra beinni braut

Evrópumót íslenskra hesta á ís verður haldið 19. mars á skautasvæðinu í Kennermerland í Harlem í Hollandi. Þetta er í fjórða sinn sem mótið er haldið á þessum stað, áður 2006, 2007 og 2009. Mótið er haldið undir merkjum FEIF.

Búist er við að mótið í ár verði það stærsta hingað til. Gert er ráð fyrir að á annað hundrað knapa og hesta taki þátt í mótinu, frá Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu. Flestir þó frá Hollandi.

Aðstaða fyrir áhorfendur á svæðinu verður bætt til muna, bæði hvað varðar útsýni yfir keppnisvöllin og veitingaaðstöðu. Aðilar í verslun og þjónustu í kring um íslenska hestinn verða með sölubása í "söluþorpi". Keppnisformið verður með nýju sniði. Gangtegundir verða sýndar á beinni 400 metra braut, en ekki á hring eins og áður. Er þar verið að sveigja formið í átt til kynbótasýninga og gæðingakeppni á Metamóti Andvara.

Vinsældir ísmóta aukast ár frá ári út um allan heim þar sem íslenskir hestar eru haldnir. Þau hafa hins vegar verið gagnrýnd af litlum hópi hestamanna, sem telja að verið sé að gera ósanngjarnar kröfur til hrossanna.