fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenski hesturinn og íslenska vandræðabarnið

Jens Einarsson
27. janúar 2010 kl. 17:09

Séríslenskar kreddur skapa rugling

Eins og fram hefur komið í blaðinu Hestar&Hestamenn og á hestaroghestamenn.is, þá er Ísland hálfgert vandræðabarn innan FEIF. Vegna þess að félagskerfið hér á landi er tvískipt: LH, hestaíþróttin og hinn almenni hestamaður, er í ÍSÍ og heyrir undir menntamálaráðuneyti, en Félag hrossabænda og starfsmenn kynbótadóma heyra undir BÍ og landbúnaðarráðuneyti.

Í öllum öðrum löndum FEIF er þessir tveir þættir hestamennskunnar undir einum hatti. Þetta hefur valdið ruglingi og togstreitu í samskiptum Íslands við FEIF, sem ekki sér fyrir endann á.

En Íslendingar eru sér á báti í fleiri málum. Í öllum FEIF löndunum, nema Íslandi, er notast við svokallað Icetest tölvuforrit við dóma á hestaíþróttamótum. IceTest er svokallað OpenSource forrit, sem hægt er að hala niður ókeypis af vef FEIF. IceTest þykir einkar auðvelt og þægilegt í notkun og íslenskir dómarar, sem dæmt hafa í útlöndum, lofa forritið.

Þrátt fyrir þetta hefur tölvunefnd LH sérhannað forritið Kappa fyrir utanumhald um gæðinga- og íþróttadóma og telur að OpenSource forrit, eins og IceTest, geti kallað á vandræði þegar fram í sækir. Ekki eru allir stjórnarmenn LH sammála um að halda séríslensku leiðinni til streitu. Æskilegt sé að einfalda málin og skoða möguleikann á að taka upp IceTest í ljósi þess auðveldara sé fyrir eina þjóð að breyta til heldur en margar. Ekki sé stætt á því í alþjóðlegu samstarfi að halda í séríslenskar kreddur.