laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenski hesturinn dregst aftur úr

31. janúar 2011 kl. 13:33

íslenski hesturinn hefur dregist aftur úr í Evrópu hvað hlutdeild varðar.

Sóknarfæri segir Jens Iversen forseti FEIF

Í FEIF eru um það bil 60 þúsund félagasmenn, í 476 landssamtökum/félögum, í nítján þjóðlöndum, í þremur heimsálfum. Talið er, að um 6 milljónir hesta  séu  í Evrópu, og þeir gangi á um það bil 6 milljón hekturum lands.  Hestamennskan í Evrópu skapar 400 þúsund heilsársstörf  og hún veltir um 100 billjónum evra á ári.

Íslandshestamennskan er um 4% af hestamennsku í Evrópu og hefur staðið í stað á meðan hestamennskan almennt hefur aukist um 5% á ári síðastliðin tvö ár. Jens Iversen, forseti FEIF, segir að þetta valdi   stjórnarmönnum samtakanna nokkrum áhyggjum, en ljósi punkturinn sé að samkvæmt þessu  séu sóknarfærin fyrir hendi. Menn verði þó að spyrja sig hvers vegna íslenski hesturinn hafi dregist aftur úr.

Í löndum utan Íslands er íslenski hesturinn með mesta hlutdeild (af heildar hrossafjölda) í Noregi, þar sem 18% af öllum hestum eru íslenskir. Þeir eru 14%  í Danmörku , 11% í Svíþjóð og 6% í Þýskalandi. Hlutdeildin er minni í öðrum FEIF löndum.  Á Íslandi fæðast um 7600 skráð folöld á ári, en um 7400 innan hinna FEIF landana. Meira en helmingi fleiri hross eru í útlöndum en hér heima.