mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenski hesturinn á stórsýningunni Appassionata-

11. apríl 2012 kl. 17:38

Íslenski hesturinn á stórsýningunni Appassionata-

Íslenskir hestar verða hluti af stórsýningunni Apassionata sem fer um Bandaríkin næsta eina og hálfa árið. Appasionata er margverðlaunuð stórsýning sem hefur verið vinsæl fjölskylduskemmtun í Evrópu undanfarin ár. Sýningin er nú í fyrsta sinn að fara um Norður-Ameríku og var Guðmar Þór Pétursson fengin til að sjá um íslenska sýningaratriðið.

Guðmar Þór er ekki óvanur sýningum af þessu tagi, hefur staðið fyrir sýningum á íslenska hestinum í Bandaríkjunum undir nafninu The Knights of Iceland og verið ötull talsmaður íslenska hestsins þar vestra.

Guðmar hefur ráðið  fjóra knapa með sér til sýningar, þar af tvo frá Íslandi, þau Leó Hauksson og Anítu Margréti Aradóttur. Sex íslensk hross, fjögur á hverri sýningu, munu svo heilla bandaríska áhorfendur Appasionata. Sýningar fara fram þrjá daga í viku, farið verður til 66 borga og nokkur þúsund áhorfendur mæta á hverja sýningu. Sannkallað sirkuslíf bíður því Guðmars, Leós, Anítu og fjórfættu föruneyti þeirra.

Guðmar Þór telur þátttöku í sýningunni mikla kynningu á íslenska hestnum í Bandaríkjunum. „Það vita flestir af því að það er til íslenskur hestur en fólk veit kannski ekki mikið um hann. Þótt útflutningur á honum til Bandaríkjanna hafi ekki aukist mikið sést vaxandi áhugi á íslenska hestinum á því að nú eru tólf mót haldin ár hvert í Ameríku fyrir hann. Það er líka gríðarleg aukning í þjónustu-og reiðtygjasölu og í því að Bandaríkjamenn fari til Íslands í hestaferðir,“ segir hann m.a. í viðtali við Morgunblaðið 4. apríl sl. en fjölmiðlar hérlendis sem erlendis hafa gefið þátttöku hestsins á þessari stóru sýningu gaum og mun Guðmar Þór t.a.m. vera til viðtals í Íslandi í dag nk. föstudag.

Ennfremur má hér sjá viðtal við Guðmar Þór og framkvæmdarstjóra Appassionata við Amerísku sjónvarpsstöðina Whas 11.

Meðfylgjandi er kynningarmyndband sýningarinnar.