miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingar verðlaunaðir í París

4. desember 2013 kl. 11:08

Nicolas Andreani, heimsmeistarinn í vaulting, og Svanhvít Kristjánsdóttir í básnum á Salon du Cheval

Íslenski hesturinn í Frakklandi

Eiðfaxi hefur áður sagt frá verkefni þeirra Ólafs Ólafsson og Ingibjargar Kristjánsdóttur um markaðssetningu íslenska hestsins í Frakklandi. Verkefnið hefur staðið yfir í um þrjú ár og hefur gengið mjög vel. Blaðamaður Eiðfaxa ákvað að slá á þráðinn til Svanhvítar Kristjánsdóttur sem er stödd úti í Frakklandi á sýningunni Salon du Cheval í París þar sem þau eru að kynna íslenska hestinn. En Ólafur og Ingibjörg hafa fengið dyggan stuðning frá Svanhvíti og Einari Öder.

“Þetta er í þriðja skiptið sem ég kem á þessa sýningu en í fyrsta sinn sem ég tek þátt í henni. Þetta er stórglæsileg sýning og mikið að sjá og skoða.” segir Svanhvít.

Salon du Cheval er ein stærsta sýningin í París en hún stendur yfir í 9 daga. Þangað koma um 1.800 hross og um 160.000 áhorfendur. Þar er hægt að sjá margar hestategundir leika listir sínar en svæðið er um 85.000m2 og fara sýningarnar fram á 6 stöðum, í reiðhöllum og reiðgerðum. Í reiðhöllunum fara fram stærri sýningar sem aðallega eru haldnar um helgarnar og á miðvikudeginum. Í gerðunum fara fram minni sýningar og er nóg um að vera í þeim allan daginn.

“Við höfum verið með sýningu einu sinni á dag. Þar höfum við verið með skrautreið, sýnt gangtegundir og einnig höfum við leyft fólki að prófa hestana sjálf” segir Svanhvít. “Það fá sex að ríða í einu en það prófa alls 18 manns hestana á dag. Við ríðum með þeim og leyfum þeim að prófa að ríða tölt. Það hefur verið mjög vinsælt að koma og fá að prófa hestinn. Aðal tilgangurinn með því er að nálgast fólkið á þeirra grundvelli, leyfa þeim að prófa og sýna að þetta er ekki flókið. Það gerir þetta líka svolítið áþreifanlegra, ekki bara sýningaratriði.” Íslenski hesturinn hefur fengið mjög frábærar viðtökur og hefur verið nóg að gera hjá öllum því fólki sem hefur verið að undirbúa þetta.

Ásamt því að vera með þessar sýningar hafa þau verið með kynningarbás á svæðinu en fjöldinn allur af fyrirtækjum eru með kynningarbása eða um 450 talsins. “Á hverjum degi kemur hingað fólk frá Íslandshestafélaginu og er með kynningar á starfsemi sinni í Frakklandi. Einnig fáum við ljósmyndara hingað þrisvar á dag sem tekur myndir af fólki á íslenska hestinum og hefur það verið mjög vinsælt” segir Svanhvít en í dag var básinn þeirra verðlaunaður sem besti básinn á sýningunni en þessi verðlaun fær sá kynningarbás sem talin er vera flottasti básinn sem og að vera vinsælastur og með bestu þjónustuna. “Í verðlaun fengum við frítt box á næsta ári sem er mjög skemmtilegt en við ætlum okkur að vera hérna aftur þá og ætlunin er að taka þátt í aðalsýningunni.”

 

Hægt er að lesa eldri fréttir um þetta ævintýri en fyrr á árinu var tekin upp mynd á Íslandi sem verður forsýnd á fimmtudaginn í París.

Sinn eigin sendiherra
Ólafur Ólafsson kynnir íslenska hestinn í Frakklandi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Knaparnir: Seline, Charlotta, Svanhvít og Emma 

 

 

Tekið við verðlaununum; Charlotte Rabouan, Charlotta Gripenstam, Emma Näsström, Seline Rasmussen, Svanhvít Kristjánsdóttir og Martin Dischinger.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lukkudýr sýningarinnar þurfti líka að fá eina mynd af sér á hestbaki.