sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslandsmótið í hestaíþróttum á Vindheimamelum

6. júlí 2012 kl. 11:50

Dalur frá Háleggsstöðum er skagfirskur gæðingur, knapi er Barbara Wensl.

Frítt á mótið og frítt á tjaldstæðin og í leiktæki fyrir börn.

Skagfirðingar undirbúa sig nú af krafti fyrir Íslandsmót fullorðinna í hestaíþróttum, sem haldið verður á Vindheimamelum 18. til 22. júlí. Búist er við að á annað hundrað knapa taki þátt í mótinu og að skráningar verði hátt á þriðja hundrað.

Norðurlandamótið í hestaíþróttum er einnig haldið á þessu ári. Vitað er um allmarga knapa sem hafa hug á að sanna getu sína fyrir landsliðseinvaldinum Hafliða Halldórssyni, sem þegar hefur augastað á nokkrum knöpum í liðið, bæði hér heima og á meginlandinu. Ekkert er þó naglfast ennþá og þeir sem slá í gegn á Melunum geta tryggt sér sæti.

Þess ber að geta að frítt er inn á svæðið, bæði á mótið sem slíkt og tjaldstæðin. Leiktæki fyrir börn verða á svæðinu og það er einnig frítt í þau. Eyþór Einarsson, framkvæmdastjóri mótsins, segir að kapp verði lagt á að gefa fjölskyldufólki kost á að eiga notalega og skemmtilega helgi á Vindheimamelum, án þess að þurfa að borga mikið fyrir það. „Það verðu notaleg kaffihúsastemmning í veitingaskálanum mótsdagana og það má finna margvíslega afþreyingu í Skagafirði. Þetta er upplagt tækifæri til að eiga góða frídaga í fögru umhverfi og horfa á falleg hross,“ segir Eyþór.

Tekið verður á móti skráningum 10. til 12. júlí. Frekari upplýsingar má finna HÉR.

Lágmörk í keppnisgreinar má finna HÉR

Upplýsingar um afþreyingu í Skagafirði má finna HÉR.