sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslandsmótið hefst í dag

19. júlí 2012 kl. 08:21

Íslandsmótið hefst í dag

Í dag, fimmtudag, hefst Íslandsmót fullorðinna á Vindheimamelum. Það er allt klárt á svæðinu, vellir eiga að vera góðir og búið að setja veitingaskálann í “sparifötin”.

Knapafundur hefst kl: 18:30 og verður knöpum boðið upp á súpu og brauð.  Meðal þess sem þar verður kynnt er að Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir mótsins, mun fara yfir fyrirkomulag á skoðun hrossa en á mótinu verður framkvæmd hin svokallaða “klár í keppni” skoðun á öllum hrossum. Síðan kl: 20:00 verður keppt í fyrstu greinunum, 150 m og 250 m skeiði.

Þá má minna á að það er enginn aðgangseyrir inn á mótið, hoppukastalar verða í boði yfir helgina fyrir börnin og hægt að fá teymt undir krökkum hjá Hestasport sem er á svæðinu.

Á laugardagskvöldið mun hið stórskemmtilega band, Þúfnapex taka nokkur lög í Skálanum en síðan verður hestamanna ball með hljómsveitinni Spútnik í Miðgarði og verður boðið upp á sætaferðir frá Vindheimamelum.

Þeir sem eiga alls ekki heimangengt til þess að fylgjast með dýrðinni geta a.m.k. séð úrslitin í sjónvarpinu, en RÚV verður með beinaútsendingu frá mótinu á sunnudag.