laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslandsmót í hestaíþróttum hafið

25. ágúst 2010 kl. 15:46

Íslandsmót í hestaíþróttum hafið

Íslandsmót í hestaíþróttum hófst í dag, miðvikudaginn 25. ágúst kl. 14:00. Mótið mun standa í fjóra daga. Því mun ljúka með A úrslitum í tölti,  slaktaumatölti, fjórgangi og  fimmgangi á laugardaginn. Úrslit hefjast kl. 15:00 og verður þeim sjónvarpað í beinni útsendingu í Sjónvarpinu (RÚV). Það er hestamannafélagið Sörli í Hafnarfirði sem heldur mótið en það fer fram á glæsilegu mótsvæði félagsins í upplandi Hafnarfjarðar.

 
Þátttaka í mótinu er afar góð en um 400 knapar er skráðir til leiks í ofangreindum greinum auk gæðingaskeiðs og skeiðkappreiða. Hestamannafélagði Sörli fagnar þessari miklu þátttöku en mótinu var frestað um mánuð vegna veiki sem herjað hefur á íslenska hrossastofninn.
 
Mótið hófst með forkeppni í fimmgangi og mun henni ljúka í kvöld. Fimmtudaginn 26. ágúst verður forkeppni í fjórgangi og hefst hún kl. 9:00, forkeppni í slaktaumatölti hefst kl. 16:15. Kl. 18:30 hefst keppni í gæðingaskeiði. Um 50 hestar eru skráðir þar til leiks. Áhugafólki er sérstalklega bent á þessa grein enda mikið sjónarspil í vændum en keppni í þessari grein tekur aðeins um klukkuktíma. Að loknu gæðingaskeiði verður mótið sett formlega.
 
Keppni í tölti hefst kl. 9:00 föstudaginn 27. ágúst. B-úrslit í fimmgangi verða kl. 16:30 og B-úrslit í  fjórgangi, slaktaumatölti og tölti í beinu framhaldi. Um kvöldið verður keppt í 250 og 150 m skeiði. Á laugardegi verður keppt í 100 m skeiði og A- úrslit hefjast kl. 15:00.
 
Aðstaða fyrir áhorfendur er góð en búið er að setja upp stúkur á mótsvæðinu. Veitingasala er í félagsheimili Sörla, Sörlastöðum. Veðurspá fyrir mótsdagana er góð og eru allir, hestamenn og aðrir áhugasamir,  hvattir til að mæta og fylgjast með glæsilegum sýningum og fremsta hestaíþróttafólks. Aðgangur að mótinu er án endurgjalds og allir eru velkomnir.