mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland þarf gull! Stórhuga liðsstjórar landsliðsins kynntir

18. mars 2011 kl. 21:17

Ísland þarf gull! Stórhuga liðsstjórar landsliðsins kynntir

Einar Öder Magnússon og Hafliði Halldórsson eru liðsstjórar íslenska landsliðsins í ár.

Það tilkynnti Landsliðsnefnd LH á blaðamannafundi í dag. Hlutverk þeirra verður að undirbúa og stýra vali landsliðsins í samvinnu við fulltrúa landsliðsnefnda. Þetta er í fyrsta sinn sem liðsstjórarnir eru tveir en þeir Einar Öder og Hafliði eru reynsluboltar sem Landsliðsnefndarmenn trúa að eigi eftir að fleyta Íslandi langt á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Austurríki daganna 1.-7. ágúst nk.

Saman munu liðsstjórarnir velja í íslenska landsliðið eftir reglulykli frá Landsliðsnefnd sem einnig var kynntur á blaðamannafundinum. Þá mun Einar Öder sjá um samskipti við knapa og þjálfun og Hafliði halda utan um umgjörð liðsins, og sjá um fundi og fundarhöld er varðar landsliðið.

Landsliðið mun vera sett saman af sjö keppendum úr fullorðinsflokkum, þremur úr ungmennaflokkum auk þriggja heimsmeistara og sex hrossa sem fara í kynbótadóm.

Greinilegur hugur var í þeim Hafliða og Einar Öder á blaðamannafundinum, og sögðust þeir gera miklar kröfur á sjálfa sig. Stefnan væri að sjálfsögðu að standa við fyrri árangur og koma klifjaðir gulli heim. “Ekki veitir af gulli til Íslands,” sagði Hafliði glaðbeittur.

Þegar spurt var hvort þeir héldu að fjöldi stórmóta á árinu kæmi niður á hestakosti töldu liðsstjórarnir svo ekki vera. Þvert á móti væri Ísland yfirfullt af frambærilegum hestum í ljósi veikinda og útflutningsbanns og því hefðu þeir úr mörgum glæsihrossum að velja. Hafliði og Einar Öder hafa nú næstu mánuði til að fá yfirsýn yfir hestakost og fylgjast með knöpum.

Úrtaka fyrir heimsmeistaramótið verður í ár haldið í samvinnu við hestamannafélagið Sörla og mun það vera hluti af Gullmóti félagsins, sem haldið verður að Sörlastöðum í Hafnafirði daganna 15.-18. júní nk.

Þá verða kynningarfundir haldnir víðsvegar um land á vegum liðsstjóranna. Þeir sögðu að tilgangur þeirra væri að kynna hið viðamikla verkefni, útskýra og auglýsa en ekki síst til að afla sjálfir gagna og fá yfirsýn. Ákveðið hefur verið að halda slíkan fund í Reykjavík þann 24. mars og í Top Reiter höllinni á Akureyri þann 30. mars.

Eiðfaxi fagnar stórhuga liðsstjórum!