mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ÍSÍ heiðrar íþróttamenn sérsambanda

2. janúar 2017 kl. 13:00

Lárus Á. Hannesson formaður LH og Árni Björn Pálsson Knapi ársins 2016

Árni Björn Pálsson knapi ársins 2016 heiðraður

 

Allir íþróttamenn ársins hjá sérsamböndum innan ÍSÍ voru heiðraðir á hátíðarkvöldverði í Hörpu fimmtudaginn 29.desember síðastliðinn.  framhaldinu fór svo fram valið á Íþróttamanni ársins sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir. Á hófinu var á meðal jafningja okkar maður og knapi ársins, Árni Björn Pálsson. Hvert sérsamband sendir ÍSÍ stutta greinargerð um sinn íþróttamann fyrir hófið. Hér að neðan má lesa um afrek Árna Björns í íþrótta- og gæðingakeppni árið 2016.

Árni Björn Pálsson er knapi ársins 2016 og á að baki breiðan árangur á árinu sem er að líða. Hann var tilnefndur til verðlauna í flokkunum Íþróttaknapi ársins, Skeiðknapi ársins, Kynbótaknapi ársins og Knapi ársins á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember sl.
Árni Björn er jafnvígur í öllum greinum hestamennskunnar, hvort sem það er gæðingakeppni, íþróttakeppni, kynbótasýningar eða kappreiðar. Árni Björn varð Íslandsmeistari í tölti 2016 og var það í fjórða sinn sem hann stendur uppi sem sigurvegari í þeirri grein á stólpagæðingnum Stormi frá Herríðarhóli. Þeir sigruðu einnig töltkeppni Landsmóts hestamanna nú í sumar með einkunnina 9,22.

 Árni Björn á frábæran árangur í öðrum greinum íþróttakeppninnar eins og skeiði, fimmgangi og fjórgangi. Hann stóð uppi sem sigurvegari í Meistaradeildinni í hestaíþróttum árið 2016 en þar sigraði hann í gæðingafimi, slaktaumatölti, fimmgangi og tölti.

Árni Björn hefur verið sterkur í skeiðkappreiðum sumarsins. Hann sigraði 150m skeiðið á Landmótinu á Hólum á besta tíma ársins í þeirri grein;  13,86 sek. á hryssunni Korku frá Steinnesi. Hann á einnig þriðja besta tímann í 250m skeiði í ár á hestinum Dalvari frá Horni.

Eins og sjá má hér fyrir ofan er árangur Árna Björns breiður og hann stendur framarlega í öllum greinum keppni og sýninga, sem sést best á því að hann var tilnefndur í fjórum flokkum af fimm mögulegum á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember sl. Það er einstakt afrek að sigra í tölti bæði á Landsmóti og Íslandsmóti sama sumarið eins og Árni Björn gerði árið 2014. Þann leik endurtók hann í sumar, 2016, á hinum einstaka Stormi frá Herríðarhóli.

Árni Björn er fyrirmyndarknapi og íþróttamaður af lífi og sál, prúður innan vallar sem utan og frábær fyrirmynd ungra knapa. Hann er mikill fagmaður og einbeittur keppnismaður. Hann mætir vel undirbúinn til leiks með vel þjálfaða og vel undirbúna hesta og setur markið hátt. Hann fer afar vel á hesti, er jákvæður, sanngjarn og einbeittur reiðmaður og skipar sér í röð allra fremstu reiðmanna í heiminum á íslenskum hestum.